Innlent

Hafa lokið rann­sókn á Sam­herjamálinu

Atli Ísleifsson skrifar
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. Vísir/Vilhelm

Rannsókn embættis héraðssaksóknara á Samherjamálinu svokallaða er lokið og hefur gögnum verið komið til saksóknara hjá embættinu sem mun taka ákvörðun um hvort að ákært verði í málinu. Níu manns – ýmist fyrrverandi eða núverandi starfsmenn Samherja – eru með réttarstöðu sakbornings í málinu.

RÚV greinir frá þessu en rannsókn héraðssaksóknara hefur staðið í um fimm ár. Málið kom upp eftir þátt Kveiks þar sem fjallað var um starfsemi Samherja í Namibíu og meint mútubrot, peningaþvætti og auðgunarbrot.

Í þættinum steig Jóhannes Stefánsson uppljóstrari fram og fullyrti meðal annars um mútugreiðslur og skattsvik.

Embætti héraðssaksóknara hóf í kjölfar umfjöllunarinnar rannsókn á málinu og er haft eftir Ólafi Þór Haukssyni héraðssaksóknari að málið hafi verið umfangsmikið og að það sé áfangi og ákveðin kaflaskil að rannsókninni sé nú lokið.

Hann segir að ekki sé hægt að segja til um hvenær ákvörðun verði tekin um mögulegar ákærur í málinu.

Málið vakti á sínum tíma mikla athygli í Namibíu og leiddi meðal annars til afsagnar ráðherra í ríkisstjórn. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×