Erlent

Combs á­fram í gæslu­varð­haldi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Móðir Combs og börn voru viðstödd dómsuppsöguna í gær og fögnuðu ákaft þegar hann var sýknaður af alvarlegustu ákæruliðunum.
Móðir Combs og börn voru viðstödd dómsuppsöguna í gær og fögnuðu ákaft þegar hann var sýknaður af alvarlegustu ákæruliðunum. Getty/Eduardo Munoz Alvarez

Tónlistarmaðurinn Sean Combs situr enn í gæsluvarðhaldi eftir að hafa verið fundinn sekur um tvo ákæruliði af fimm af kviðdómi í New York í gær. 

Verjendur Combs fóru fram á að honum yrði sleppt en dómarinn vísaði meðal annars til þess að sannað hefði verið að rapparinn hefði framið ofbeldisverk og þannig væri ekki við hæfi að láta hann lausan að svo stöddu.

Diddy, eins og hann er gjarnan kallaður, mun því áfram verða haldið í fangelsinu í Brooklyn þar sem hann hefur dvalið frá því í september í fyrra.

Combs var fundinn sekur um fólksflutninga í tengslum við vændi en sýknaður af ákærum um mansal og skipulagða glæpastarfsemi. Að óbreyttu verður honum gerð refsing 3. október næstkomandi en verjendur hans hafa farið fram á að ákvörðuninni verði flýtt.

Tónlistarmaðurinn á yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi en flestir sérfræðingar vestanhafs sem hafa tjáð sig um málið telja refsinguna þó munu verða töluvert mildari. Þeir ítreka hins vegar að dómarinn hafi mjög frjálsar hendur hvað þetta varðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×