Fyrir­liði þýska liðsins fór grátandi af velli en þær þýsku unnu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jule Brand fagnar hér frábæru marki sínu fyrir þýska landsliðið í kvöld.
Jule Brand fagnar hér frábæru marki sínu fyrir þýska landsliðið í kvöld. Getty/Matthias Hangst

Þýskaland byrjaði Evrópumót kvenna í fótbolta á sigri í Sviss í kvöld en það var þó enginn stórsigur eins og sumir bjuggust við.

Þýskaland vann 2-0 sigur á Póllandi eftir að það var markalaust í hálfleik.

Pólsku stelpurnar voru að spila sinn fyrsta leik í Evrópukeppni frá upphafi og héldu út fram á 52. mínútu.

Þá tók Jule Brand sig til, keyrði upp að vítateignum og skoraði með frábæru skoti upp í fjærhornið. Mark mótsins hingað til.

Lea Schüller kom þýska liðinu í 2-0 á 66. mínútu með skalla eftir stoðsendingu frá Brand. Skömmu síðar hafði hún skallað yfir úr dauðafæri.

Þýsku stelpurnar sköpuðu sér mun fleiri færi í seinni hálfleik en þær pólsku voru líka skeinuhættar.

Þýska liðið varð fyrir miklu áfalli í fyrri hálfleiknum þegar fyrirliðinn Giulia Gwinn fór grátandi af velli.

Gwinn meiddist á hné við það að bjarga frábærlega þegar markadrottningin Ewa Pajor var komin í dauðafæri. Miðað við viðbrögðin hjá Gwinn þá gæti þetta verið alvarlegt en vonandi ekki.

Pajor minnti reglulega á sig í leiknum og var oft nálægt því að skora fyrir pólska liðið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira