Innlent

Leitar að eig­anda trúlofunar­hrings sem fannst í fjöru

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Hringurinn fannst við Keilugranda í Reykjavík.
Hringurinn fannst við Keilugranda í Reykjavík.

Genti Salliu var í sínum vikulega göngutúr um Vesturbæ Reykjavíkur þegar hann sá glitta í eitthvað óvenjulega rautt í fjörunni við Keilugranda. Það reyndist box utan um glæsilegan trúlofunarhring, en Gent gerir nú dauðaleit að eiganda hans.

Genti birti mynd af hringnum í Vesturbæjarhópnum á Facebook, þar sem hann auglýsir eftir eiganda hringsins.

„Ég fann þetta box (með gullfallegum hring) nálægt Keilugranda. Annað hvort fór ástarsaga einhvers ekki eftir áætlun ... eða kannski er einhver mávur með rómantískt bónorð í bígerð.“

„Ef þú eða einhver sem þú þekkir saknar hringsins, sendið mér skilaboð. Við skulum koma þessum hring á réttan fingur áður en mávarnir fara að biðja hver annars,“ segir hann í færslunni.

Í samtali við Vísi segir Genti að engar merkingar séu á kassanum, en á hringnum séu einhverjir stafir sem honum hefur ekki tekist að lesa vegna smæðar.

Genti vonar að hringurinn komist í hendur eigandans.

„Ég þyrfti að finna gleraugun mín til að sjá þetta betur.“

Hann telur að annað hvort hafi einhver kastað hringnum frá sér í uppnámi, mögulega vegna höfnunar, eða að hringurinn hafi dottið úr vasa eða poka einhvers.

Gent býr í miðbænum og gengur þarna um að minnsta kosti einu sinni í viku. Enginn hefur sett sig í samband við hann og sagst eiga hringinn, en hann bindur vonir við að eigandinn komi í ljós að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×