Erlent

Elon Musk stofnar nýjan stjórn­mála­flokk

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Deilur Musks og Trumps um fjárlagafrumvarp hins síðarnefnda leiddu til stofnunar nýs flokks.
Deilur Musks og Trumps um fjárlagafrumvarp hins síðarnefnda leiddu til stofnunar nýs flokks. Getty

Elon Musk, ríkasti maður heims, hefur stofnað nýjan stjórnmálaflokk í Bandaríkjunum, Ameríkuflokkinn. Musk segir í færslu á samfélagsmiðlum að í Bandaríkjunum sé í raun bara eins flokks kerfi, ekki lýðræði, í það minnsta þegar kemur að því að stefna landinu í gjaldþrot með sóun og spillingu, eins og hann kemst að orði.

„Við ætlum að brjóta eins flokks kerfið á bak aftur með aðferð sambærilegri þeirri sem Epaminondas notaði þegar hann rústaði mýtunni um að Spartanir væru ódauðlegir í bardaganum við Leuctra: Svakalega mikið afl á einn nákvæman stað á vígvellinum,“ er það sem Musk í færslu á samfélagsmiðlum, í lauslegri þýðingu.

Elon Musk studdi Donald Trump í kosningunum í nóvember og varði gríðarlegum fjármunum í framboð hans. Musk starfaði svo náið með Trump og ríkisstjórninni í upphafi, og kom að stofnun nýrrar hagræðingarstofnunar ríkisins svokallaðrar, DOGE.

Musk lét svo af störfum, eða var rekinn, að öllum líkindum vegna deilna um tollamál en þó aðallega um fjárlagafrumvarp Trumps. Musk hefur látið hörð orð falla um frumvarpið sökum þess að talið er að það muni auka skuldir bandaríska ríkisins til muna á næstu árum.

Svo fór að í kekki kastaðist milli þeirra og létu þeir hvor um sig stór orð falla um hinn á samfélagsmiðlum. Musk sagði meðal annars að nafn Trumps væri að finna í Epstein skjölunum umtöluðu, og Trump hótaði að reka hann úr landi.

Musk hefur talað um að stofna Ameríkuflokkinn um nokkurt skeið, en hann stofnaði aðgang á samfélagsmiðlinum X fyrir flokkinn um miðjan júnímánuð. Nafnið á aðganginum er einfaldlega America, og í prófílmyndinni er bandaríski fáninn.

Þegar þetta er ritað hefur aðgangurinn 1,1 milljón fylgjendur, en færslurnar eru svo gott sem óteljandi.


Tengdar fréttir

Deilurnar halda áfram og Musk boðar „Ameríkuflokkinn“

Elon Musk, auðugasti maður heims, og fyrrverandi samstarfsmaður Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, hefur gefið til kynna að hann langi að stofna nýjan stjórnmálaflokk í Bandaríkjunum. Það er í kjölfar mjög svo opinberra deila hans og Trumps síðustu daga, og segist Musk vilja kalla flokk þennan „Ameríkuflokkinn“.

Hótar Musk alvarlegum afleiðingum styðji hann Demókrata

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sendi Elon Musk, auðugasta manni heims og fyrrverandi bandamanni sínum, viðvörun í gær. Trump sagðist ekki hafa nokkra ástæðu til að lappa upp á samband þeirra að svo stöddu, eftir opinberar deilur þeirra síðustu daga. Þá hét Trump „alvarlegum afleiðingum“ ef auðjöfurinn notaði peninga sína til að styðja Demókrata í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×