Sport

Loksins náði hann verð­launa­palli eftir 238 keppnir

Haraldur Örn Haraldsson skrifar
Nico Hulkenberg komst á verðlaunapall í fyrsta sinn síðan hann byrjaði í Formúlu 1 árið 2010.
Nico Hulkenberg komst á verðlaunapall í fyrsta sinn síðan hann byrjaði í Formúlu 1 árið 2010. Clive Rose/Getty

Nico Hulkenberg náði 3. sætinu á Silverstone kappakstrinum í dag. Þessi 37 ára ökumaður hóf feril sinn í Formúlu 1 árið 2010, hafði byrjað 238 keppnir en aldrei komist á verðlaunapall fyrr en í dag.

Þjóðverjinn var lengi búinn að eiga þetta met að vera sá ökumaður sem hefur tekið þátt í flestum Formúlu 1 keppnum án þess að ná á verðlaunapall. Hann var klökkur þegar hann fór yfir marklínuna í dag. „Ég veit ekki hvort ég geti skilið það sem ég var að gera,“ sagði Hulkenberg við liðið sitt í talstöðina.

Hulkenberg hóf keppni í dag í 19. sæti, en hann náði að vinna sig upp listann. Það var meðal annars vegna þess að það rigndi gríðarlega mikið og aðrir ökumenn tókust verr á við þá áskorun.

„Ég var í afneitun alveg fram að síðasta skiptið sem við skiptum um dekk. Engin mistök, ég er mjög ánægður,“ sagði Hulkenberg í viðtali eftir keppni.

Hulkenberg keppir fyrir Sauber, en liðið hafði ekki náð á verðlaunapall síðan árið 2012 þegar Kamui Kobayashi náði 3. sæti í japanska kappakstrinum.

Hulkenberg gat ekki hætt að brosa eftir kappaksturinn.Clive Rose/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×