Innlent

Jökulhlaup úr Mýrdalsjökli í Leirá Syðri og Skálm enn í gangi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Flóðavöktunarstöð sem sett var upp í Leirá syðri þann 14. nóvember 2024. Í bakgrunni sést í Sandfellsjökul en hlaupvatnið kemur þaðan undan jöklinum.
Flóðavöktunarstöð sem sett var upp í Leirá syðri þann 14. nóvember 2024. Í bakgrunni sést í Sandfellsjökul en hlaupvatnið kemur þaðan undan jöklinum. Njáll Fannar Reynisson/Veðurstofa Íslands

Jökulhlaup úr Mýrdalsjökli í Leirá Syðri og Skálm er enn í gangi. Vatnshækkun og rafleiðni hefur farið mjög hægt vaxandi í nótt samkvæmt tilkynningu Veðurstofunnar. Þar kemur jafnframt fram að náið sé fylgst með aðstæðum og að uppfærsla um hlaupið verði birt á heimasíðu þeirra í dag.

Greint var frá því í gær að rafleiðni og vatnshæð hefði hækkað í Leirá Syðri samkvæmt mælingum nýlegs vöktunarmælis framan við Sandfellsjökul. Hækkuð rafleiðni og vatnshæð hafi einnig sést í mælingum við brúna á þjóðvegi 1 yfir Skálm, en Leirá Syðri rennur í Skálm ofan vegarins.

Einnig kom fram að tilkynningar um brennisteinslykt hefðu borist Veðurstofunni frá Þórsmörk og við Emstruá. Fólki var því beðið að sýna aðgát við upptök árinnar þar sem gasmengun gæti verið á svæðinu.

Í tilkynningu Veðurstofunnar í gær sagði að hlaup sem þessi frá jarðhitasvæðum við jökulbotn séu þekkt í ýmsum ám í kringum Mýrdalsjökul, svo sem í Múlakvísl og Fremri-Emstruá.

Í gegnum tíðina hafi komið misstór hlaup í Leirá. Á árunum 1995 til 2000 hafi árlega komið hlaup í ána auk þess sem lítið hlaup kom í ána árið 2012. Ekkert tjón varð af þessum hlaupum utan þess að framburður þeirra hækkaði aurkeilu Leirár sunnan Sandfells sem leiddi til þess að syðri kvísl Leirár leitaði inn á ný svæði og að lokum yfir í Skálm.

Kort sem sýnir staðsetningu flóðavöktunarmæla í kringum Mýrdalsjökul. Mælar í Leirá syðri (V665) og Skálm (V412) er merktir með appelsínugulum hring.Veðurstofan

„Í lok júlí í fyrrasumar kom einnig lítið hlaup í Leirá Syðri og Skálm. Í kjölfar þess hlaups kom óvænt umtalsvert hlaup sem flæddi yfir þjóðveg 1 og rauf hann á kafla. Hlaupið átti uppruna sinn í tveimur kötlum í Mýrdalsjökli sunnan við Austmannsbungu. Katlarnir eru myndaðir vegna bráðnunar íss af völdum jarðhita við jökulbotn. Í kjölfar stóra hlaupsins í lok júlí 2024 hafa fjögur minni hlaup orðið í ánni. Ekkert tjón varð að völdum þeirra. Seinasta slíka hlaup varð í desember síðastliðnum ,“ sagði í tilkynningunni.

Nánar hér á vef Veðurstofunnar.


Tengdar fréttir

Flogið þangað sem enginn kemst nema í draumi

„Það er auðvelt að gleyma sér og stara á stórbrotin listaverk skriðjöklanna, horfa á með augum fuglsins, fljúga þangað sem engin kemst nema í draumi.“

Stór skjálfti í Goðabungu

Jarðskjálfti sem mældist 3,7 stig reið yfir í Mýrdalsjökli rétt fyrir klukkan sex í morgun. 

Hlaupið í rénun

Jökulhlaup sem staðið hefur yfir í Skálm undanfarna sólarhringa er í rénun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×