Erlent

Stúlkur látnar af­klæðast til að at­huga með blæðingar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Blæðingar eru mikið tabú á Indlandi.
Blæðingar eru mikið tabú á Indlandi. Getty

Skólastjóri og starfsmaður grunnskóla á Indlandi hafa verið handteknir eftir að foreldrar stúlkna kvörtuðu yfir því að þær hefðu verið neyddar til að afklæðast eftir að blóð fannst á salerni skólans.

Atvikið átti sér stað í þorpi skammt frá Mumbai en að sögn foreldranna voru allir nemendur á aldrinum 10 til 16 ára kallaðir inn á sal á þriðjudag, þar sem þeim voru sýndar myndir af salerninu. Á þeim mátti meðal annars sjá blóðugt handafar.

Skólastjórnvöldum kröfðust þess að fá að vita hvort einhverjar stúlkur í salnum væru á blæðingum, en blæðingar eru mikið tabú víða á Indlandi og stúlkur og konur gjarnan álitnar óhreinar á meðan þeim stendur. 

Handafar var tekið hjá þeim stúlkum sem sögðust vera á blæðingum en hinar, tíu til fimmtán stúlkur voru látnar afklæðast og gangast undir skoðun.

Foreldrarnir sögðu í samtali við BBC að atvikið hefði verið mikið áfall fyrir stúlkurnar. Þeir hafa krafist þess að lögregla geri yfirvöld ábyrg.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem atvik af þessu tagi eiga sér stað á Indlandi en árið 2017 voru 70 stúlkur látnar afklæðast í skóla í Uttar Pradesh eftir að starfsmaður fann blóð á salernishurð.

Þá voru nemendur í Gujarat látnir gangast undir líkamsleit árið 2020, eftir að þeir hættu að tilkynna um blæðingar sínar til skólayfirvalda. Um var að ræða mótmælaaðgerðir nemendanna en stúlkum á blæðingum var jafnan bannað að snerta aðra nemendur, nota sameiginlega eldhúsaðstöðu og sækja bænahús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×