Innlent

Stjórnar­and­staðan sakar for­seta um al­var­legan trúnaðar­brest

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Hildur Sverrisdóttir er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm

Stjórnarandstöðuflokkarnir þrír segja beitingu forseta Alþingis á 71. grein þingskapalaga alvarlegan trúnaðarbrest milli stjórnarandstöðunnar og forseta. 

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi sem Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins flutti á Alþingi fyrir skömmu í liðnum fundarstjórn forseta. Veiðigjaldafrumvarpið var samþykkt á þinginu í dag.

Í yfirlýsingunni segir Hildur framgöngu Þórunnar Sveinbjarnardóttur forseta Alþingis um beitingu 71. greinar þingskapalaga hafa skapað trúnaðarbrest milli stjórnarandstöðunnar og forseta.

„Valdbeiting kallar á viðbrögð og varkárni þess sem verður fyrir henni. Forseta hlýtur að hafa verið ljóst að sú ákvörðun er ekki án afleiðinga og mun ekki vera án afleiðinga, lita samskipti okkar og setja svip á þinghald kjörtímabilsins. 

Hér varð alvarlegur trúnaðarbrestur milli stjórnarandstöðunnar og forseta. Og við komumst ekki hjá því að líta svo á að forseti sé fyrst og fremst fulltrúi meiri hlutans en ekki forseti alls þingsins.“

Þórunn beitti 71. grein þingskapalaga á föstudag, en hún kveður á um heimild forseta til að leggja til að umræðum verði hætt. Tillaga þess efnis var samþykkt sama dag og veiðigjaldamálið því sett í þriðju umræðu. Málinu lauk í dag að fullu þegar frumvarpið var samþykkt í atkvæðagreiðslu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×