Erlent

Trump kærir fjölmiðlaveldi fyrir æru­meiðingar

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Gagnrýnir fjölmiðlamenn verða seint sagðir góðvinir Bandaríkjaforseta.
Gagnrýnir fjölmiðlamenn verða seint sagðir góðvinir Bandaríkjaforseta. AP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur höfðað mál gegn tveimur fjölmiðlum, Rupert Murdock, eiganda Wall Street Journal og New York Post og tveimur blaðamönnum Wall Street Journal fyrir ærumeiðingar.

Málið var höfðað í Míamí í Flórídaríki en lítið liggur fyrir um umfang þess eða efni. Tilefni málsóknarinnar er talið vera umfjöllun Wall Street Journal um meint afmælisbréf sem Trump sendi þá góðvini sínum Jeffrey Epstein, auðjöfri og barnaníðingi með meiru. Á bréfið á hann að hafa teiknað klæmna mynd og slegið í það botninn með því að óska þess að „allir dagar [yrðu] annað dá­sam­legt leyndar­mál.“

Trump hafði hótað að kæra blaðamennina sem merktir voru fyrir fréttinni en þeir eru þau Khadeeja Safdar og Joe Palazzolo. Fréttin birtist á síðu Wall Street Journal í gærkvöld.

„Wall Street Journal og Ropert Murdoch [eigandi Wall Street Journal] persónulega voru vöruð við því af Donald J. Trump forseta að þetta meinta bréf sem þeir birtu frá Trump forseta til Epstein var FÖLSUN og að, birti þeir það, verði þeir kærðir,“ skrifar Trump í færslu á samfélagsmiðlum.

New York Post er áttundi mest lesni fjölmiðill Bandaríkjanna samkvæmt Press Gazette.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×