Innlent

Versta sviðs­myndin, galið greiðslu­mat og ó­væntur fundur

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Erla Björg Gunnarsdóttir les kvöldfréttirnar á Sýn í kvöld.
Erla Björg Gunnarsdóttir les kvöldfréttirnar á Sýn í kvöld. vísir

Versta sviðsmynd hungursneyðar er að raungerast á Gaza samkvæmt nýrri skýrslu. Alþjóðasamfélagið beitir auknum þrýstingi og Bretar ætla að viðurkenna sjálfstæði Palestínu ef Ísraelar bregðast ekki við ástandinu. Í kvöldfréttum Sýnar sjáum við sláandi myndir frá Gaza og heyrum frá forsætisráðherra Bretlands sem stóð fyrir blaðamannafundi nú síðdegis.

Dæmi eru um að fólk í greiðsluerfiðleikum geti ekki lækkað greiðslubyrði lána þar sem það kemst ekki í gegnum greiðslumat. Við ræðum við formann Neytendasamtakanna sem segir málið einfaldlega galið og kallar eftir breytingum.

Þrátt fyrir ákvæði stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð eru engin framlög í nýsamþykktri fjármálaáætlun Alþingis til að hefja jarðgangagerð á kjörtímabilinu. Þar er aðeins að finna óljós áform um stofnun innviðafélags. Kristján Már Unnarsson fréttamaður mætir í myndver og fer yfir málið.

Við kíkjum einnig í Hallgrímskirkju og ræðum við kirkjuvörð sem segir dæmi um að ferðamenn laumi sér þangað inn á meðan útfarir standa yfir. Þá skoðum við brú sem fannst óvænt við framkvæmdir við Suðurlandsbraut og förum í Fljótshlíð þar sem þriggja ára drengur stal senunni á svokallaðri útimessu.

Þetta og margt fleira í opinni dagskrá á samtengdum rásum Sýnar, Bylgjunnar og Vísis klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×