Fótbolti

Dregið í riðla á HM í Las Vegas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Augu fótboltaheimsins verða á Las Vegas í byrjun desember en líklegt að drátturinn fari fram í The Sphere.
Augu fótboltaheimsins verða á Las Vegas í byrjun desember en líklegt að drátturinn fari fram í The Sphere. Getty/Kevin Carter

Bandaríkjamenn munu sjá um dráttinn fyrir komandi heimsmeistarakeppni í fótbolta en ekki Kanadamenn og Mexíkóar sem halda mótið með þeim sumarið 2026.

Dregið verður í riðla 5. desember næstkomandi og mun athöfnin fara fram í Las Vegas samkvæmt bandarískum fjölmiðlum.

Þetta verður í fyrsta sinn þar sem 48 þjóðir verða í pottinum en þetta verður stærsta heimsmeistarakeppni sögunnar.

Þjóðum fjölgar úr 32 í 48 eða um sextán. Riðlarnir verða tólf talsins með fjögur lið hver.

Efstu tvö liðin komast áfram en einnig átta af tólf með bestan árangur í þriðja sætinu.

Þetta er endurtekning á því þegar Bandaríkjamenn héldu heimsmeistaramót karla síðast sem var árið 1994. Þá var einnig dregið í riðla í Las Vegas.

Þá fór athöfnin reyndar fram í Las Vegas Convention Center en hún er uppbókuð 5. desember.

Það eru mestar líkur á því að drátturinn far fram í hringhúsinu The Sphere sem opnaði fyrir tveimur árum.

Þar er 54 þúsund fermetra skjár og húsið tekur 17.500 manns í sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×