Innlent

Vestmanneyingar „slógu velferðarskjaldborg“ yfir gesti

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá stóra sviðinu í Herjólfsdal í nótt.
Frá stóra sviðinu í Herjólfsdal í nótt. Jon from Iceland

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum virðist hafa gengið vel fyrir sig í gærkvöldi eftir að Vestmanneyingar „slógu velferðarskjaldborg“ yfir gesti. Var það eftir að slagviðri fór yfir eyjuna í fyrrinótt og olli þar usla.

Í tilkynningu frá forsvarsmönnum hátíðarinnar segir að hátíðarhöldin hafa farið vel fram og að Þjóðhátíðargestir hafi skemmt sér konunglega. Tónleikadagskráin á stóra sviðinu hafi verið „sannkölluð flugeldasýning“.

„Það var stórkostlegt að sjá brekkuna lifna við í gærkvöldi. Nú höldum við ótrauð áfram inn í síðasta daginn af þessari Þjóðhátíð sem nú þegar hefur skrifað sig á spjöld sögunnar,“ sagði Jónas Guðbjörn Jónsson, formaður Þjóðhátíðarnefndar, í áðurnefndri tilkynningu sem send var út undir morgun.

„Ég má til með að ítreka þakkir til allra gestanna fyrir þrautseigju og allra Vestmanneyinganna sem slógu velferðarskjaldborg yfir gestina okkar í gær og fyrri nótt.“

Hátíðarhöldin halda áfram í kvöld með fleiri tónleikum og síðan brekkusöng sem stýrt verður af Magnúsi Kjartani. Þá verður kveikt í brennunni, sem frestað var á föstudagskvöldið vegna veðurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×