Erlent

Demó­kratar flýja Texas svo þing geti ekki komið saman

Agnar Már Másson skrifar
Hakeem Jeffries, leiðtogi Demókrata í Texas, talar á blaðamannafundi gegn fyrirhuguðum breytingum á kjördæmaskipan ríkisins sem myndi líklega tryggja repúblikönum fleiri sæti.
Hakeem Jeffries, leiðtogi Demókrata í Texas, talar á blaðamannafundi gegn fyrirhuguðum breytingum á kjördæmaskipan ríkisins sem myndi líklega tryggja repúblikönum fleiri sæti. Vísir

Þingmenn Demókrata í Texas í Bandaríkjunum eru margir búnir að yfirgefa ríkið til að koma í veg fyrir að hægt sé að kalla saman þing til að samþykkja drög að nýrri kjördæmaskipan.

Greint var frá því í síðustu viku þegar ríkisþingmenn Repúblikanaflokksins í Texas í Bandaríkjunum opinberuðu drög að nýjum kjördæmum í ríkinu til að þynna út kjördæmi þar sem Demókratar hafa verið kjörnir og ná þannig fimm þingsætum af Demókrataflokknum fyrir þingkosningarnar á næsta ári.

Drögin voru teiknuð upp að beiðni Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem vill að gripið verði til sambærilegra aðgerða í öðrum ríkjum þar sem Repúblikanar halda í stjórnartaumanna, til að mynda Missouri og Indiana.

Þingmenn Demókrata í Texas gætu nú átt yfir höfði sér sektir eða aðrar refsingar, að því er AP greinir frá, þar sem þeir hafa nú margir gripið til þess örþrifaráðs að yfirgefa ríkið í von um að koma í veg fyrir að þing verði kallað saman á ný. Ríkissaksóknari Texas hafði áður hótað því að handtaka þingmennina ef þeir flýðu ríkið.

„Þetta er ekki ákvörðun sem við tökum af léttúð,“ segir Gene Wu, formaður þingflokks Demókrata í fulltrúadeildinni, í yfirlýsingu um ákvörðun sinna þingmanna að yfirgefa ríkið.

Við venjulegar kringumstæður er kjördæmum breytt á um tíu ára fresti, í kjölfar reglulegs manntals í Bandaríkjunum. Þá er 435 þingsætum í fulltrúadeildinni deilt á ríki í hlutfalli við íbúafjölda. Það að breyta kjördæmum með þessum hætti, í hag annars flokksins í Bandaríkjunum, kallast á „Gerrymandering“ á ensku.

Nýju drögin skera helstu borgir Texas, þar sem bróðurpartur íbúa ríkisins nýr í stærri og dreifbýlli kjördæmum, og útþynna þannig atkvæði íbúa borganna. Í einu tilfelli yrði lítil sneið af Austin tengd við bæinn Odessa, sem er í 547 kílómetra fjarlægð frá Austin.

Í Texas í fyrra fengu frambjóðendur Repúblikanaflokksins 58,41 prósent atkvæða og Demókratar 40,39 prósent. Repúblikanar fengu 25 þingsæti og Demókratar þrettán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×