Erlent

Heimila sölu gervi­greindar örflaga til Kína gegn hluta af á­góðanum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jensen Huang er framkvæmdastjóri Nvidia.
Jensen Huang er framkvæmdastjóri Nvidia. Getty/Roy Rochlin

Stjórnvöld í Bandaríkjunum eru sögð hafa komist að fordæmalausu samkomulagi við tæknifyrirtækin Nvidia og Advanced Micro Devices um að 15 prósent af hagnaði fyrirtækjanna vegna sölu gervigreindar örflaga í Kína renni í ríkissjóð.

Greint var frá því fyrir um það bil mánuði síðan að stjórnvöld hefðu ákveðið að leyfa Nvidia að selja gervigreindar örflöguna H20 í Kína en Jensen Huang, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, er síðan sagður hafa átt fund með Donald Trump Bandaríkjaforseta í síðustu viku þar sem gengið var frá áðurnefndu samkomulagi.

Tveimur dögum eftir fundinn fékk Nvidia formlega heimild til að hefja sölu örflaganna til Kína.

Samkvæmt umfjöllun New York Times er fyrirkomulagið allt að því fordæmalaust en í takt við stefnu ríkisstjórnar Trump. Í júní síðastliðnum samþykktu stjórnvöld til að mynda að japanska fyrirtækið Nippon Steel fengi að fjárfesta í U.S. Steel, gegn því að ríkið fengi eignarhlut í fyrirtækinu.

Samkomulagið við Nvidia og AMD gæti fært ríkinu allt að tvo milljarða dala á þessu ári.

Margir sérfræðingar hafa gagnrýnt harðlega þá ákvörðun stjórnvalda að heimila sölu gervigreindar örflaga til Kína. Áhyggjur eru meðal annars uppi um að þarlend stjórnvöld muni ganga á lagið og freista þess að ná svipuðum samningum um útflutningsheimildir á dýrmætri tækni gegn greiðslu. 

Sérfræðingarnir segja þjóðaröryggi Bandaríkjanna þannig stofnað í hættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×