Sport

„Þá sér maður að það brestur margur og klökknar“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sigurbjörn Bárðarson, landsliðsþjálfari í hestaíþróttum.
Sigurbjörn Bárðarson, landsliðsþjálfari í hestaíþróttum. Vísir

Heimsmeistaramóti íslenska hestsins lauk í Sviss í gær. Landsliðsþjálfari íslenska liðsins segir árangurinn á mótinu hafa verið frábæran og að tár hafi fallið hjá knöpum sem þurfa nú að skilja við hestana sína erlendis vegna sóttvarnalaga.

Heimsmeistaramót íslenska hestsins fór fram í Sviss síðustu vikuna og lauk í gær. Ísland vann til gullverðlauna í níu keppnisgreinum af fjórtán auk þess að vinna tíu silfur og tvö brons. Sigurbjörn Bárðarson landsliðsþjálfari segir árangurinn frábæran.

„Þetta var gífurlega mikil uppskera og sérstaklega í yngri flokkunum þar sem vannst alveg gífurlega góður árangur. Yfir heildina kemur landslið Íslands út sem stór sigurvegari á mótinu. Við vinnum svokallaðan liðsbikar sem er mikill akkur í því að vinna,“ sagði Sigurbjörn í samtali við fréttastofu Sýnar.

Þá sagði Sigurbjörn að sigur Aðalheiðar Önnu Guðjónsdóttur í slaktaumatölti hefði verið glæsilegur en þetta er í fyrsta sinn sem Ísland vinnur til gullverðlauna í þeirri grein. Þá vann Árni Björn Pálsson tölthornið svokallaða sem er einn eftirsóttasti titill mótsins.

Söluverð getur hlaupið á tugum milljóna en spurning með gróðann

Nú þegar mótinu lýkur þarf að skilja hestana eftir erlendis vegna sóttvarnalaga hér á landi. Sigurbjörn sagði yfir 90% hestanna vera selda nú þegar en söluverð eins hests hleypur á milljónum eða jafnvel tugum milljóna. Hann sagði þó erfitt að tjá sig um fjárhagslegan ávinning af sölu þeirra.

„Þú kynnir þig, kemur þér á framfæri. Þetta er atvinna manns og við það að koma þér á framfæri þá eru sóknarfæri á ýmsum stöðum í góða vinnu. Það eru allir að fá eitthvað til baka en svo þegar þú ert búinn að þjálfa hest í kannski fjögur ár, afburðagrip, þegar þú reiknar vinnuna þá er ekki þar með sagt að þú sér að græða svo mikið.“

Mæta jafnvel sínum eigin verðlaunahestum á næsta móti

Þá nefnir hann að hestarnir séu seldir til erlendra aðila sem keppa jafnvel á þeim á næstu mótum.

„Snúningurinn fyrir okkur er að við erum að fara með bestu hestana okkar, sem er tveggja, þriggja, fjögurra eða jafnvel fimm ára þjálfunarferli að baki og eru búnir að vinna til fjölda verðlauna hér á landi. Síðan eru þau látin af hendi og nýir eigendur eru andstæðingar og keppninautarnir sem mæta jafnvel á næsta mót á þeim sum hver.“

„Við erum þá að lenda í hörkuslag og verðum að vera búin að finna okkur nýjan stofn og koma aftur með nýtt blóð að keppa á móti okkar fyrrverandi skörungum. Svolítið mismunandi gefið á garðann eins og maður segir.“

Þá tengjast knapar hestum sínum tilfinningaböndum og tár megi sjá á hvarmi margra.

„Þegar þeir eru að afhenda hestinn eða ljúka keppni þá er tekið utan um og þá sér maður að það brestur margur og klökknar, eðilegur viðskilnaður við vini sína þegar að þessum punkti kemur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×