Innlent

Haraldur Briem er látinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Haraldur Briem er látinn en hann gegndi stöðu sóttvarnarlæknis í átján ár.
Haraldur Briem er látinn en hann gegndi stöðu sóttvarnarlæknis í átján ár. Stjórnarráðið

Haraldur Briem, fyrrverandi sóttvarnarlæknir og aðstoðarlandlæknir, lést 11. ágúst síðastliðinn á líkn­ar­deild Land­spít­al­ans í Kópa­vogi, 80 ára að aldri.

Greint er frá andláti hans í Morgunblaðinu í dag.

Har­ald­ur fædd­ist í Reykja­vík 9. ág­úst 1945, sonur hjónanna Ei­rík­s Eggerts­sonar Briem, raf­magnsveit­u­stjóra rík­is­ins og fram­kvæmda­stjóra Lands­virkj­un­ar, og Maju-Gretu Briem, sænsks korta­teikn­ara. Haraldur var eldri bróðir Eiríks Briem, rekstrarhagfræðings og framkvæmdastjóra, sem lést árið 2018.

Har­ald­ur varð stúd­ent frá MR árið 1965 og lauk lækna­prófi við Há­skóla Íslands 1972. Hann fékk sér­fræðings­leyfi í Svíþjóð í bráðum smit­sjúk­dóm­um árið 1979 og ári síðar hér á landi og lauk síðan doktors­námi í lækna­vís­ind­um við Karol­inska Institu­tet í Stokk­hólmi árið 1982. Haraldur hafði það forskot að eiga sænska móður og lýsti því að Svíar hefðu aldrei heyrt að hann væri íslenskur.

Har­ald­ur starfaði sem lækn­ir, með sér­hæf­ingu í smit­sjúk­dóm­um og sýkla­rann­sókn­um, hér á landi og í Svíþjóð um ára­bil. Vann hann meðal annars í Eskilstuna, við Roslagstulls-sjúkra­húsið, Karol­inska, St. Gör­ans-sjúkra­húsið og Vis­by-spítala sem yf­ir­lækn­ir.

Yfirlæknir smitsjúkdómadeildar, settur landlæknir og sóttvarnarlæknir

Haraldur kom heim frá Svíþjóð eftir doktorsnámið og fékk fljót­lega stöðu sér­fræðings í smit­sjúk­dóm­um við Borg­ar­spít­al­ann og varð síðar yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar. Hann hóf störf árið 1995 við land­læknisembættið, með áherslu á sótt­varn­ir, og gegndi um tíma stöðu aðstoðarland­lækn­is og sem sett­ur land­lækn­ir. Frá árs­byrj­un 1998 til 2015 var Haraldur sótt­varna­lækn­ir við embætti land­lækn­is.

Har­ald­ur stundaði rann­sókn­ir og kennslu við Há­skóla Íslands og í há­skól­um í Svíþjóð. Hann var ásamt fleiri lækn­um í far­ar­broddi hérlendis í bar­áttu gegn al­næmi, við erfiðar aðstæður. Þá gegndi hann ýms­um fé­lags- og trúnaðar­störf­um fyr­ir lækna, var í stjórn Lækna­fé­lags Reykja­vík­ur, var lengi formaður Fé­lags íslenskra smit­sjúk­dóma­lækna og átti sæti í fjöl­mörg­um nefnd­um og ráðum. Eft­ir Har­ald ligg­ur fjöldi greina í hér­lend­um og er­lend­um fag­tíma­rit­um, þ.á m. ritaði hann leiðara í tíma­rit­inu Lancet.

Har­aldi hlotnuðust ýms­ar viður­kenn­ing­ar fyr­ir störf sín, hann fékk Nor­rænu lýðheilsu­verðlaun­in árið 2012 og ís­lensku fálka­orðuna árið 2019 fyr­ir störf á vett­vangi heilsu­vernd­ar og lýðheilsu. Einnig vann hann í alþjóðlegu samstarfi við Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins að gerð alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar sem var honum mikill heiður.

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Har­ald­ar er Snjólaug G. Ólafs­dótt­ir, f. 1945, fyrrverandi skrif­stofu­stjóri. Son­ur þeirra er Ólaf­ur Andri Briem, f. 1974.

Uppfært: Í upphaflegri frétt var nafn Snjólaugar G. Ólafsdóttur ritað Sólveig. Beðist er velvirðingar á því.


Tengdar fréttir

Haraldur Briem fær Norrænu lýðheilsuverðlaunin í ár

Norrænu lýðheilsuverðlaunin árið 2012 hlotnast að þessu sinni dr. Haraldi Briem, sóttvarnalækni og sérfræðingi í smitsjúkdómum hjá Embætti landlæknis, fyrir mikilvægar rannsóknir á útbreiðslu smitsjúkdóma og fyrir baráttu gegn ónæmi fyrir sýklalyfjum. Haraldi voru veitt verðlaunin á árlegum fundi norrænna heilbrigðisráðherra sem nú stendur yfir í Bergen í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×