Innlent

Inn­brot og slags­mál í mið­borginni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir í umferðinni í gærkvöldi og nótt, meðal annars vegna ölvunaraksturs.
Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir í umferðinni í gærkvöldi og nótt, meðal annars vegna ölvunaraksturs. Vísir/Vilhelm

Fjórir gistu fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í morgun en alls voru 55 mál bókuð í gærkvöldi og nótt. Verkefni næturinnar voru fjölbreytt.

Lögregla var meðal annars kölluð til vegna yfirstandandi innbrots í miðborginni. Grunaði komst undan en fannst skömmu síðar með ýmsa muni sem hann er talinn hafa tekið ófrjálsri hendi. Var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Aðstoðar lögreglu var einnig óskað í miðborginni vegna slagsmála tveggja einstaklinga en þegar komið var að kom í ljós að um var að ræða kunningja sem höfðu orðið ósáttir. Hvorugur vildi leggja fram kæru en lögregla aðstoðaði þá við að leysa úr málum.

Tilkynnt var um eld í bifreið við verslunarkjarna en grunur leikur á um að um íkveikju hafi verið að ræða og er málið í rannsókn. Þá var tilkynnt um eld í iðnaðarhúsnæði en þar reyndist um að ræða bilun í öryggiskerfi.

Tilkynnt var um yfirstandandi innbrot í heimahús og er það mál í rannsókn. Þá rannsakar lögregla einnig líkamsárás sem átti sér stað í heimahúsi.

Lögregla var svo kölluð til vegna hávaða en þar reyndist húsráðandi vera að spila tölvuleik. Var hann beðinn um að lækka, sem hann kvaðst myndu gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×