Körfubolti

„Þetta var sjokk fyrir hann“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Craig Pedersen segir erfitt að mæta Ísraelum en menn reyni að einblína á leikinn sjálfan, fremur en annað.
Craig Pedersen segir erfitt að mæta Ísraelum en menn reyni að einblína á leikinn sjálfan, fremur en annað. Vísir/Hulda Margrét

Craig Pedersen, landsliðsþjálfari karla í körfubolta, segir leikmenn liðsins sjaldan, eða jafnvel aldrei, hafa verið eins vel undirbúna og þeir eru fyrir komandi Evrópumót sem hefst í dag. Ísland mætir Ísrael klukkan tólf.

„Mér líður vel. Mér finnst við vel undirbúnir og allt er til staðar. Á æfingu (gær)dagsins förum við bara í örfá smáatriði. En mér finnst við aldrei hafa verið eins vel undirbúnir. Hvað leikmennina varðar finnst mér við á betri stað taktíst en höfum nokkurn tíma verið. Við getum ekki beðið eftir að byrja,“ segir Pedersen í samtali við Vísi.

Klippa: Missir af langbesta varnarmanni liðsins

Undirbúningur liðsins hafi gengið.

„Við erum með plan beggja megin vallarins og erum vel undirbúnir. Við sjáum hvernig boltinn rúllar fyrir okkur á morgun. Undirbúningsleikirnir hafa gengið vel gegn sterkum og stórum liðum. Í töpuðu leikjunum spiluðum við mjög vel og fengum helling út úr þeim. Undirbúningurinn hefur verið mjög góður.“

Haukur Helgi Pálsson heltist úr lestinni skömmu fyrir mót vegna meiðsla á barka. Craig segir fjarveru hans áfall, í ljósi þess að hann sé besti varnarmaður liðsins.

„Hann hefur spilað frábærlega í sumar og hann er lang besti varnarmaðurinn okkar. Hann gefur okkur reynslu og veit alltaf hvað hann á að gera við boltann þegar hann fær hann. Það var mikið áfall fyrir liðið. Þetta var sjokk og mikil vonbrigði fyrir hann. En við erum spenntir að hann komi hingað á föstudaginn og verði með okkur,“ segir Craig.

Haukur Helgi fór í aðgerð í fyrradag og líkt og Craig nefnir væntanlegur til Póllands á föstudag þar sem hann mun vera með liðinu, þó það verði ekki innan vallar.

Ísrael er andstæðingur morgundagsins. Töluverð óánægja ríkir víða vegna þátttöku liðsins á mótinu í ljósi ítrekaðra árása Ísraels á Gasa.

Kallað hefur verið eftir sniðgöngu íslenska liðsins á leiknum sem KKÍ hefur ekki í hyggju. Þó hefur sambandið kallað eftir brottreksti Ísraela af mótinu, samkvæmt framkvæmdastjóra þess. Craig vandaði orðaval sitt vel er hann var spurður út í áhrif pressunar sem fylgir á leikmenn liðsins.

„Við höfum talað um það og það er erfitt að hugsa um það. Við erum að reyna að spila körfubolta, hvernig á maður að segja þetta? Við virðum erfiðleikana á svæðinu og það sem gengur á, en reynum að halda okkar einbeitingu við körfubolta,“ segir Craig.

Fleira kemur fram í viðtalinu sem má sjá í spilaranum.


Tengdar fréttir

„Við erum bara að hugsa um körfu­bolta“

„Það er fiðringur og þetta er frábært. Þetta er að kikka inn núna eftir mikinn aðdraganda og bið. Það er loksins komið að þessu og partíið er að byrja,“ sagði spenntur Martin Hermannsson á hóteli körfuboltalandsliðsins í Katowice í gær.

„Þetta var sjokk fyrir hann“

Craig Pedersen, landsliðsþjálfari karla í körfubolta, segir leikmenn liðsins sjaldan, eða jafnvel aldrei, hafa verið eins vel undirbúna og þeir eru fyrir komandi Evrópumót sem hefst í dag. Ísland mætir Ísrael klukkan tólf.

„Við erum bara að hugsa um körfubolta“

„Það er fiðringur og þetta er frábært. Þetta er að kikka inn núna eftir mikinn aðdraganda og bið. Það er loksins komið að þessu og partíið er að byrja,“ sagði spenntur Martin Hermannsson á hóteli körfuboltalandsliðsins í Katowice í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×