Körfubolti

Er þetta Tryggvi eða kannski Shaquille O'Nealason?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason treður boltanum í körfuna eftir að hafa losað sig við varnarmann Slóvena.
Tryggvi Snær Hlinason treður boltanum í körfuna eftir að hafa losað sig við varnarmann Slóvena. Vísir/Hulda Margrét

Íslenski miðherjinn Tryggvi Snær Hlinason hefur átt magnað Evrópumót með íslenska landsliðinu og átt meðal annars hverja troðsluna á fætur annarri.

Tryggvi bætti nokkrum troðslum við í leiknum á móti Slóveníu í gær en tvær þeirra vöktu mikla athygli.

Í þeirri fyrri þá var NBA súperstjarnan Luka Doncic eitthvað að reyna að dekka okkar mann inn í teig.

Martin Hermannsson var fljótur að lesa aðstæður og kom boltanum inn á Tryggva.

Doncic átti ekki möguleika í okkar mann og hrökk af honum en Tryggvi tók boltann og hamraði honum í körfuna.

Ekki löngu síðar í leiknum þá fann Martin Tryggva aftur undir körfunni en að þessu sinni þá sneri Tryggvi varnarmanninn laglega af sér áður en hann hamraði boltann í körfuna.

Þessar tröllatroðslur Tryggva fékk samfélagsfólkið hjá miðlum Evrópumótsins til að kalla hann Shaquille O'Nealason.

Það má sjá troðslurnar og færslu FIBA EuroBasket hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×