Leik lokið: Ís­land - Frakk­land 114 - 74 | Af­leitur endir á EM

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Illa gekk hjá Íslandi í lokaleiknum gegn sterku liði Frakklands.
Illa gekk hjá Íslandi í lokaleiknum gegn sterku liði Frakklands. vísir / hulda margrét

Ísland tapaði með fjörutíu stigum í síðasta leiknum á EM. Frakkland fór með afar öruggan 114-74 sigur gegn Íslandi sem hefur lokið leik á mótinu.

Þetta var lokaleikur Íslands á EM og ljóst var fyrir leik að sama hvernig færi myndi liðið ekki halda áfram keppni. Frakkar vildu hins vegar vinna leikinn til að enda eins ofarlega og hægt er í riðlinum.

Það sást líka strax frá fyrstu mínútu, hvort liðið hafði að einhverju að keppa og hvort liðið hefði lokið leik á mótinu.

Sigtryggur Arnar byrjaði inn á í fyrsta sinn á mótinu.vísir / hulda margrét

Ísland mætti mjög illa til leiks, tapaði boltanum ítrekað og hitti lítið sem ekkert úr sínum skotum. Frakkar mættu af hins vegar af fullum krafti og gáfu engan afslátt, staðan eftir fyrsta leikhluta 36-9 fyrir Frakklandi.

Almar Atlason fékk fleiri mínútur en vanalega. vísir / hulda margrét

Strákunum okkar gekk betur sóknarlega þegar þeir stigu út á gólf í öðrum leikhluta og fóru að setja skotin niður en vörnin var áfram hriplek og hleypti þeim frönsku auðveldlega að körfunni.

Frakkar voru komnir með sextíu stig áður en fyrri hálfleik lauk, staðan 66-34 þegar liðin gengu inn til búningsherbergja og vonir Íslands um sigur svo gott sem engar.

Fátt gekk upp hjá Íslandi í fyrri hálfleik. vísir / hulda margrét

Liðin héldu nokkurn veginn sama dampi í seinni hálfleik. Frakkar gáfu ekkert eftir og stækkuðu forystuna meðan Ísland dróst enn lengra aftur úr.

Martin og Tryggvi komust lítið áleiðis. vísir / hulda margrét

Frakkland var með 44 stiga forystu þegar fjórði leikhluti hófst en þá veittu þeir loksins einhvern afslátt varnarlega og strákarnir okkar fóru að setja skemmtileg stig á töfluna.

Styrmir Snær tróð með stæl, Kristinn setti þristinn og vítaskot að auki, Frakkland hætti svo að spila vörn og fleiri fengu að troða boltanum niður, en leikurinn var of langt leiddur í aðra áttina til að Ísland ætti möguleika.

Fyrsti EM-sigurinn þarf því að bíða, Frakkland vann að endingu 114-74 en líkt og í öðrum leikjum mótsins voru strákarnir okkar vel studdir og stuðningsmenn Íslands stóðu þétt við bakið á þeim þegar yfir lauk.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira