Erlent

Al­ríkis­lög­reglan birtir mynd­skeið af morðingjanum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Á myndskeiðinu sést byssumaðurinn hlaupa eftir þaki, stökkva niður og ganga í burtu.
Á myndskeiðinu sést byssumaðurinn hlaupa eftir þaki, stökkva niður og ganga í burtu. Skjáskot

Alríkislögreglan hefur birt myndskeið sem sýnir einstaklinginn sem grunaður er um að hafa banað Charlie Kirk hlaupa eftir þaki byggingar, stökkva niður, og ganga í burtu.

Samkvæmt texta sem fylgir myndskeiðinu segir að grunaði hafi klifrað upp á þakið um klukkan tólf á hádegi en myndskeiðið sýni hann stökkva af þakinu og ganga á brott eftir að „hann skaut og myrti Charlie Kirk“ um tuttugu mínútum síðar.

Þá greinir frá því að viðkomandi hafi skilið skotvopn og skotfæri eftir í skóglendi nærri háskólanum þar sem árásin átti sér stað. Greint hefur verið frá því að um hafi verið að ræða 30 kalíbera Mauser riffil. Á þakinu hafi fundist skófar, far eftir framhandlegg og lófafar.

Þeir sem telja sig hafa einhverjar upplýsingar um málið eru hvattir til að setja sig í samband við Alríkislögreglunni, segir einnig í textanum.

„Við þurfum alla þá hjálp sem við getum fengið,“ sagði Spencer Cox, ríkisstjóri Utah, á blaðamannafundi í gær. „Við getum ekki gert þetta án aðstoðar frá almenningi.“

Yfirvöld segja 7.000 ábendingar hafa borist í tengslum við skotárásina.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tók undir það með blaðamanni í gær að menn ættu ekki að svara morðinu á Kirk með meira ofbeldi en bæði hann og fleiri embættismenn hafa kallað eftir því að morðinginn verði dæmdur til dauða.

Líkamsleifar Kirk voru fluttar til Arizona í gær um borð í Air Force Two. Um borð voru varaforsetahjónin og Erika, ekkja Kirk. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×