Leik lokið: Breiða­blik - ÍBV 1-1 | Eyja­menn náðu ekki upp í efri hlutann

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Breiðablik skoraði jöfnunarmark seint í leiknum eftir að hafa lent undir snemma. 
Breiðablik skoraði jöfnunarmark seint í leiknum eftir að hafa lent undir snemma.  vísir/diego

Breiðablik og ÍBV gerðu 1-1 jafntefli í lokaleik Bestu deildar karla fyrir tvískiptingu. Eyjamenn misstu þar með af sæti í efri hlutanum á markatölu. Stigið færir Breiðablik nær næstu liðum, núna sex stigum frá Stjörnunni og Víkingi.

Leikurinn fór afar hægt af stað hjá báðum liðum. Gestirnir frá Vestmannaeyjum skoruðu fyrsta mark leiksins á 26. mínútu þegar Sverrir Páll Hjaltested átti skot á markið sem Damir Muminovic reyndi að hreinsa í burtu en hitti þverslánna og boltinn skaust til baka í markið.

Breiðablik var meira með boltann en sendingar fóru forgörðum og liðið átti erfitt með að skapa sér hættuleg færi. Staðan því 0-1 fyrir Eyjamönnum í hálfleik.

Síðari hálfleikur einkenndist af því sama og í fyrri. Heimamenn meira með boltann en áttu lítið af svörum við þéttum varnarpakka ÍBV.

Tobias Thomsen tókst að jafna leikinn með frábærum skalla á 82. mínútu. Jafntefli niðurstaðan og ÍBV spilar innbyrðis leiki í neðri hluta deildarinnar. Breiðablik heldur sínu plássi í fjórða sæti og er liðið nú án sigurs í síðustu sjö leikjum og Evrópusætið fjarlægist smám saman ásamt liðunum fyrir ofan.

Atvik leiksins

Það verður að vera fyrsta mark leiksins sem var stórfurðulegt. Alex Freyr Hilmarsson átti fyrsta skotið sem endaði í stönginni. Vicente Valor tók frákastið en Anton Ari Einarsson varði þann bolta. Þá kemur Sverrir Páll Hjaltested og tekur skotið, Damir reyndi að bjarga á línu en skotið hans fór í þverslána og svo í netið.

Stjörnur og skúrkar

Marcel Zapytowski átti frábæran leik í marki ÍBV ásamt þéttum varnarpakka ÍBV manna.

Stemning og umgjörð

Fín umgjörð hérna á leik sem var til styrktar Ljóssins. Hefði viljað heyra mér í stuðningsmönnum beggja liða og sérstaklega þá Breiðabliks megin.

Dómarar

Þórður Þorsteinsson Þórðarson var á flautunni í dag, með honum voru Kristján Már Ólafs og Bergur Daði Ágústsson á hliðarlínunum. Engin stór atvik og leikurinn fékk að flæða vel.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira