Skoðun

Varð­veitum vatnið – hug­vekja

Hópur starfsfólks Náttúruminjasafns Íslands skrifar

Vatn er dýrmætasta auðlind jarðar. Allt líf byggist á vatni – við erum öll á einn eða annan hátt vatnsverur.

Birtingarmyndir vatnsins eru margar. Hér á Íslandi birtist það okkur í úrkomunni, jöklunum, stöðuvötnum og votlendissvæðum, grunnvatninu og fallvötnum, og árósum þar sem ferskvatn rennur til sjávar. Hvert og eitt þessara svæða er mikilvægt á sinn einstaka hátt og segja má að öll vistkerfi lands og hafs tengist með rauðum þræði í gegnum vatnið.

Vatnið er margháttuð uppspretta lífsgæða fyrir Íslendinga. Það er dýrmætt neysluvatn, í því felast fallkraftar sem knýja virkjanir og úr jörðu streymir jarðhitavatn sem ber með sér varmaorku neðan úr jarðskorpunni.

En vatnið er ekki aðeins auðlind manns og samfélags, heldur einnig náttúrunnar allrar; lífríkisins sem þrífst í, við og á vatni. Vatnavistkerfi fela í sér mikilvæg búsvæði fjölbreyttra tegunda, agnarsmárra sem risastórra og í því býr kraftur líffræðilegrar fjölbreytni sem mannkynið reiðir sig á til allrar framtíðar.

Hnattrænt eru vatnavistkerfi þau lífkerfi sem stafar hvað mest ógn af athöfnum okkar mannanna. Þar ráða mestu búsvæðaeyðing, mengun frá landbúnaði og þéttbýlissvæðum, breytingar á farvegum og vatnstaka, ágengar framandi tegundir og síðast en ekki síst loftslagsbreytingar. Áskoranirnar eru fjölmargar og mikilvægt að huga vel að því fjöreggi sem vatnið er fyrir okkur.

Náttúruminjasafn Íslands tekur nú þátt ásamt fjölda stofnana, sveitarfélaga og fyrirtækja í verkefninu LIFE ICEWATER, sem snýst í meginatriðum um vatnsvernd á Íslandi og vitundarvakningu um mikilvægi vatns á lands- og heimsvísu. Meira er hægt að fræðast um verkefnið hér.

Á degi íslenskrar náttúru er við hæfi að minna á þau verðmæti sem felast í hreinu og heilnæmu vatni. Við tökum því gjarnan sem sjálfsögðum hlut en minnum okkur á að óspillt vatn þarfnast stöðugrar aðgátar og umhyggju.

Höfundar eru starfsfólk Náttúruminjasafns Íslands.

Ragnhildur Guðmundsdóttir, settur forstöðumaður

Anna Katrín Guðmundsdóttir

Hannes Arason

Helga Aradóttir

Hilmar J. Malmquist

Margrét Rósa Jochumsdóttir

Rannveig Magnúsdóttir

Skúli Skúlason

Snæbjörn Guðmundsson

Viðar Hreinsson

Þóra Björg Andrésdóttir




Skoðun

Sjá meira


×