Ó­dýr vítaspyrna tryggði tíu Madrídingum endurkomusigur

Mbappé skoraði bæði mörk Madrídinga úr vítaspyrnu en sú seinni var gefin afar ódýrt.
Mbappé skoraði bæði mörk Madrídinga úr vítaspyrnu en sú seinni var gefin afar ódýrt. Mateo Villalba Sanchez/Getty Images

Real Madrid tók á móti Marseille og vann 2-1 sigur í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar. Madrid lenti undir en vann leikinn á vítaspyrnum, þrátt fyrir að vera manni færri.

Fyrri hálfleikurinn var mikil skemmtun og bæði lið lögðu upp með mikinn sóknarbolta en Madrídingar lentu í áföllum snemma leiks.

Trent Alexander-Arnold þurfti að víkja af velli eftir aðeins fimm mínútur og eftir rúmar tuttugu mínútur voru heimamenn lentir undir.

Markið kom úr einni af mörgum skyndisóknum Marseille og Timothy Weah kom boltanum í netið eftir stoðsendingu Mason Greenwood, nokkuð gegn gangi leiksins þar sem Real hafði verið hættulegri.

Forystan hélst líka ekki lengi því aðeins sjö mínútum síðar jafnaði Kylian Mbappé með marki úr vítaspyrnu, eftir klaufalega tæklingu Goeffrey Kondogbia á Rodrygo.

Staðan jöfn 1-1 í hálfleik, að miklu leiti þökk sé markmanni Marseille, Geronimo Rulli, sem varði tíu skot í fyrri hálfleik.

Skot í slá og rautt spjald

Seinni hálfleikur hófst síðan með látum og Kylian Mbappé átti skot í slánna á 50. mínútu en síðan dró ekki aftur til tíðinda fyrr en á 70. mínútu, þegar Dani Carvajal fékk rautt spjald fyrir að skalla andstæðing sinn.

Ódýr vítaspyrna skilaði sigurmarki

Þrátt fyrir að vera manni færri tókst Real Madrid að setja sigurmarkið, sem fékkst afhent á silfurfati. Dómarinn dæmdi mjög vafasama vítaspyrnu þegar leikmaður Marseille tæklaði boltann en fékk hann svo í höndina.

Kylian Mbappé steig aftur á punktinn, setti sitt annað mark og tryggði Madrid 2-1 sigur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira