Erlent

Fara fram á dauða­refsingu yfir Robinson

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Fangamyndir af Tyler Robinson sem birtar hafa verið í Bandaríkjunum.
Fangamyndir af Tyler Robinson sem birtar hafa verið í Bandaríkjunum.

Ríkissaksóknari í Utah hefur farið fram á dauðarefsingu yfir hinum 22 ára Tyler Robinson sem grunaður er um að hafa banað Charlie Kirk í síðustu viku. Hann hefur verið ákærður í sjö ákæruliðum.

Jeff Gray ríkissaksóknari í Utah greindi frá ákærunni á blaðamannafundi í dag þar sem hann sagði morðið á Kirk bandarískan harmleik.

Dauðarefsing í ljósi aðstæðna og eðli glæpsins

Fyrsti liður ákærunnar er fyrir morð af ásettu ráði, fyrir að hafa viljandi banað Charlie Kirk. Liður tvö er fyrir að hafa hleypt af skotvopni með ólöglegum hætti.

Saksóknari segir líklegt að pólitískar skoðanir Kirks hafi verið ástæða morðsins. 

Robinson er einnig ákærður fyrir að hafa reynt að hafa áhrif á vitnisburð herbergisfélaga síns, með því að hafa beðið hann um að segja ekkert við lögregluna og eyða skilaboðum sem hann hafði sent sér.

Einn ákæruliðurinn er fyrir að hafa framið gróft ofbeldisbrot í návist barna.

Saksóknari sagði að í ljósi aðstæðna og eðli glæpsins færi hann fram á dauðarefsingu yfir hinum ákærða, og reifaði svo í kjölfarið helstu atriði málsins.

„Það var of mikil illska í honum“

„Það var of mikil illska í þessum gaur. Hann dreifir of miklu hatri,“ segir saksóknari að Robinson hafi sagt við foreldra sína eftir morðið.

Robinson hafi svo rætt við fjölskylduvin, fyrrverandi lögreglustjóra á eftirlaunum, sem hafi sannfært Robinson um að gefa sig fram.

Hann hafi játað morðið í sms-skilaboðum við trans-kærustu sína og herbergisfélaga, og einnig skilið eftir skilaboð undir lyklaborði í íbúð þeirra þar sem stóð, „Ég hef tækifæri til þess að taka út Charlie Kirk, og ég ætla að gera það.“

Robinson hafi orðið pólitískari og vinstri sinnaðri síðustu ár

Herbergisfélaginn segir að hann hafi rætt við Robinson eftir morðið sem hafði þá eftirfarandi að segja:

„Ég var búinn að fá nóg af hatrinu hans [Kirk]. Sumt hatur er ekki hægt að semja við.“

Saksóknari segir að móðir Robinson hafi sagt að hann hefði orðið vinstri sinnaðri á undanförnum árum, og hefði fengið mikinn áhuga á málefnum samkynhneigðra og trans fólks.

Móðir hans segir að hann hafi byrjað í sambandi með herbergisfélaga sínum, sem er trans kona.

Fréttin hefur verið uppfærð


Tengdar fréttir

Sagði frá fyrirætlunum sínum í SMS-i fyrir morðið

Hinn 22 ára gamli Tyler Robinson, sem grunaður er um að hafa skotið fjarhægrimanninn Charlie Kirk til bana á háskólasamkomu í Utah í síðustu viku, sendi smáskilaboð í aðdraganda morðsins þar sem hann sagðist ætla að drepa Kirk. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×