Skoðun

Manneklan er víða

Brynhildur Bolladóttir skrifar

Mikið hefur verið rætt um manneklu á leikskólum en minna fer fyrir umræðu um manneklu í frístundastarfi.

Dóttir mín er í 2. bekk í Laugarnesskóla. Frá skólabyrjun hefur hún farið einu sinni í frístund því ekki hefur tekist að manna hana nægjanlega og 1. bekkur gengur fyrir. Eðlilega.

Þær gleðifréttir bárust í síðustu viku, sem var fjórða vika skólaársins, að hún fékk einn dag í vistun í viku. Börn í 3. bekk, sem tilheyra annarri frístundamiðstöð (það er önnur umræða hvort það sé vænlegt), hafa hins vegar verið með tvo daga í vistun frá upphafi skólaárs og eru nú með fulla vistun. Ég get ekki orðað það öðruvísi en að mér finnist það ósanngjarnt. 1. og 3. bekkur í Laugarnesskóla fá þannig notið alls þess sem frístund býður upp á en 2. bekkur er útundan.

Fyrir utan áhrifin sem þetta hefur á fjölskyldur og fjölskyldulífið, hvað þá þær sem standa verr en aðrar; hafa ekki sterkt bakland, komast illa frá vinnu o.s.frv. þá eru það blessuð börnin. Þau eru að missa af því að vera bara börn sem leika sér og starfa í skemmtilega umhverfi frístundarinnar. Þau finna vel fyrir streitunni sem þetta veldur öllum foreldrum. Þau sem standa verr félagslega einangrast. Með hverjum deginum sem líður mun verða erfiðara að sannfæra þau um að fara í frístund.

Almennt er mikið hamrað á Reykjavíkurborg varðandi allt sem miður fer, til dæmis myglað húsnæði, og látið eins og það sé aðeins vandamál í borginni. Mér hefur oft fundist það ósanngjarnt, enda er myglað húsnæði um allt land sem hefur áhrif á hina ýmsu starfsemi. Ég hef ekki hugmynd um hvort mannekla frístundamiðstöðva er vandamál víðar en í Reykjavík, en þar bý ég og þetta hefur áhrif á líf mitt. Á hverjum einasta degi. Fimmta vikan af nánast engri frístund er hafin og ekki sér fyrir endann á því. Lítið er um svör hvernig hægt sé að bregðast við. Það væri forvitnilegt að vita hvernig staðan er í öðrum sveitarfélögum.

Tilgangur þessara litlu skrifa minna eru kannski bara að vekja athygli á þessu ástandi og svo vil ég auðvitað hvetja allt fólk sem er í leit að hlutastarfi að sækja um vinnu í Laugarseli sem að ég held að sé algjörlega frábær og skemmtilegur vinnustaður. Það má sækja um á netfanginu laugarsel@reykjavik.is

Höfundur er útivinnandi móðir.




Skoðun

Sjá meira


×