Skoðun

Allt leikur í um­burðar­lyndi – eða hvað?

Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson skrifar

Umburðarlyndi hefur mér alltaf fundist einstaklega fallegt orð í íslensku máli. Orð sem við ættum öll að tileinka okkur og merking þess ætti alltaf að vera ríkjandi í samfélaginu okkar. Flest höfum við heyrt talað um að „sýna umburðarlyndi.“ En hvað þýðir þetta orð í raun og veru? Ef við flettum því upp á vef Árnastofnunnar segir „það að virða skoðanir, gildi og hegðun annara“. Gervigreindin segir mér „Umburðarlyndi er íslenskt orð sem merkir þolinmæði, víðsýni og það að sýna öðrum skilning eða þola skoðanir og lífshætti annarra, jafnvel þótt maður sé ekki sammála þeim.“

Þó ég þekki merkingu orðsins finnst mér vert að taka saman þessar skýringar. Enda ná þær svo ótrúlega vel utan um það sem samfélaginu okkar skortir að einhverju leyti um þessar mundir. Á tímum þar sem aukin heift hefur færst í umræðuna. Við getum víða staldrað við og velt fyrir okkur hvar þetta orð þarf að vera meira ríkjandi í samfélaginu okkar.

Því er ekki að neita að það hefur verið sérstaklega erfitt að fylgjast með þeirri þróun undanfarnar vikur og mánuði þar sem umræðan hefur oft á tíðum litast af mikilli heift og fordómum. Umræða sem á ekkert skylt við málfrelsi og umburðarlyndi þar sem við höfum t.d. séð sótt að einstaklingum og minnihlutahópum með hatursfullum ummælum.

Hvað hugsar þú þegar þú heyrir þetta orð, umburðarlyndi? Ég hugsa um íslenskt samfélag eins og það á að vera og við eigum alltaf að stefna á að vera. Þar sem við virðum skoðanir annara og lífshætti, sýnum þolinmæði, virðingu og skilning þó við séum ekki sammála.

Staðreyndin er sú að við öll höfum rétt á okkar skoðun en það er svo sannarlega ekki sama hvernig við setjum hana fram, vöndum okkur í umræðunni og ræðum hlutina á málefnalegan hátt. Þannig mun samfélagið okkar allt leika í umburðarlyndi.

Höfundur er 25 ára nemi og situr í stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna.




Skoðun

Sjá meira


×