Viðskipti innlent

Búið að greiða laun en barna­bætur berast seinna í dag

Atli Ísleifsson og Lovísa Arnardóttir skrifa
Hægagangur er í vinnslu hjá Reikningsstofu bankanna.
Hægagangur er í vinnslu hjá Reikningsstofu bankanna. Getty

Vegna hægagangs í vinnslum hjá Reiknistofu bankanna, RB, berast greiðslur frá Tryggingastofnun og Fjársýslu ríkisins seinna í dag en venjulega. Búið er að greiða laun opinberra starfsmanna en forstöðumaður RB segir enn tafir á greiðslu barnabóta. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reikningsstofu bankanna. Á þetta meðal annars við um laun og barnabætur.

„Það eru mánaðamót og töluvert álag á kerfin akkúrat þessa stundina. Vegna álags hefur orðið hægagangur á þessum vinnslum. Akkúrat núna eru launavinnslur keyrðar og komnar inn á reikninga launþega hins opinbera en barnabótum seinkar,“ segir Sigurður Örn Hallgrímsson, forstöðumaður Reiknistofu bankanna, í samtali við fréttastofu.

Hann segir ekki um neina árás að ræða heldur sé um töluvert álag að ræða vegna þess fjölda sem fær laun og þess fjölda sem fær barnabætur. Tugir þúsunda fái laun frá hinu opinbera og um 65 þúsund auk þess barnabætur.

Barnabætur séu venjulega greiddar að nóttu til en muni í þetta skiptið skila sér síðar í dag.

„Við biðjumst auðvitað velvirðingar á þeim óþægindum sem þessi seinkun kann að valda,“ segir Sigurður Örn að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×