Körfubolti

Stólarnir sóttu sigur til Slóvakíu í fyrsta leik

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Stjarnan Tindastóll. Leikur 2 í úrslitakeppninni. Bónus deild karla 2025.
Stjarnan Tindastóll. Leikur 2 í úrslitakeppninni. Bónus deild karla 2025.

Tindastóll sótti afar öruggan sigur til Slóvakíu í sínum fyrsta leik í Norður-Evrópudeildinni. Lokatölur gegn Slovan Bratislava 56-80 í leik sem Tindastóll stýrði frá upphafi.

Stólarnir byrjuðu sterkt og skoruðu fyrstu fimm stigin, þeir héldu síðan um tíu stiga forystu fram að hálfleik en voru búnir að stækka hana í tuttugu stig þegar þriðja leikhluta lauk. Staðan 43-63 fyrir síðasta fjórðung og Stólarnir gáfu ekkert eftir, lokatölur 56-80.

Öruggur sigur þrátt fyrir frekar slaka skotnýtingu, 45 prósent úr tveggja stiga skotum, 32 prósent úr þriggja stiga skotum og 62 prósent úr vítaskotum.

Mínútufjöldinn dreifðist nokkuð mikið milli manna, enginn spilaði meira en 25 mínútur, eins og sjá má á tölfræðiskýrslunni.

Nýr leikmaður liðsins, serbneski kraftframherjinn Ivan Gavrilovic, var stigahæstur með 20 stig en greip aðeins 4 fráköst. Öll stigin voru skoruð úr tveggja stiga skotum en Gavrilovic hitti ekki úr vítunum þremur eða þriggja stiga skotunum tveimur sem hann tók.

Íslenski ríkisborgarinn Davis Geks var næststigahæstur með 14 stig og fjóra þrista, sá eini sem setti meira en einn þrist.

Þeir byrjuðu báðir á bekknum en í byrjunarliði Tindastóls voru: Dedrick Basile, Tawio Badmus, Adomas Drungilas, Júlíus Orri Ágústsson og Ragnar Ágústsson.

Þetta var fyrsti leikurinn af allavega átta leikjum sem Stólarnir munu spila í Norður-Evrópudeildinni í vetur.

Hér fyrir neðan má sjá leikjadagskrá Tindastóls í vetur. 

Leikir Tindastóls í Norður-Evrópudeildinni. 

1. október: Slovan Bratislava - Tindastóll, útileikur í Slóvakíu.

14. október: Tindastóll - Gimle, heimaleikur gegn norsku liði.

20. október: BK Opava - Tindastóll, útileikur í Tékklandi.

11. nóvember: Tindastóll - Manchester Basketball, heimaleikur gegn bresku liði.

9. desember: Keila - Tindastóll, útileikur í Eistlandi.

6. janúar: Prishtina - Tindastóll, útileikur í Kósovó.

20. janúar: Tindastóll - KK Dinamo Zagred frá Króatíu, útileikur.

10. febrúar: Tindastóll - Brussles Basketball, heimaleikur gegn liði frá Belgíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×