Sport

Stórefnilegur og hafnaði níu milljarða króna samningi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logan Cooley varð heimsmeistari með bandaríska landsliðinu í vor og hefur þegar sannað sig í NHL deildinni þrátt fyrir ungan aldur.
Logan Cooley varð heimsmeistari með bandaríska landsliðinu í vor og hefur þegar sannað sig í NHL deildinni þrátt fyrir ungan aldur. EPA/Magnus Lejhall

Tuttugu og eins árs leikmaður í bandarísku íshokkídeildinni sagði nei takk þegar honum var boðinn risasamningur á dögunum.

Logan Cooley er án efa einn efnilegasti leikmaður NHL-deildarinnar. Hann spilar með Utah Mammoth og félagið vildi framlengja við hann samninginn fyrir tímabilið. Núverandi samningur hans, svokallaður nýliðasamningur, rennur út næsta sumar.

Forráðamenn Utah Mammoth buðu stráknum þá nýjan risasamning. Hann átti að fá 77 milljónir Bandaríkjadala fyrir átta ára samning.

Cooley átti þannig að fá 9,6 milljónir dala í árslaun sem jafngildir meira en 1,1 milljarði íslenskra króna.

Strákurinn hafnaði hins vegar samningnum og vonast væntanlega eftir hærra tilboði eða til að komast til annars félags næsta sumar.

Þessi ungi miðherji fékk 65 stig (25 mörk og 40 stoðsendingar) í 75 leikjum á síðasta tímabili, sem var hans annað tímabil í NHL.

Cooley varð fyrr á árinu heimsmeistari með bandaríska landsliðinu þar sem hann var með fjögur mörk og átta stoðsendingar í tíu leikjum. Bandaríska liðið vann þá sitt fyrsta gull síðan 1993.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×