Erlent

Segir Ind­verja ætla að hætta að kaupa olíu af Rússum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Modi heimsótt Trump í Hvíta húsið í febrúar.
Modi heimsótt Trump í Hvíta húsið í febrúar. Getty/Andrew Harnik

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í gær að Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, hefði fullvissað hann um að Indland myndi hætt að kaupa olíu frá Rússlandi.

„Það er stórt skref,“ sagði Trump við blaðamenn í Hvíta húsinu. „Nú ætlum við að fá Kínverja til að gera slíkt hið sama,“ bætti hann við.

Áður en Rússar réðust inn í Úkraínu nam olía frá Rússland aðeins einu prósenti af heildarinnflutningi Indverja. Núna koma 40 prósent af allri innfluttri olíu frá Rússlandi.

Trump sagði Inverja ekki myndu geta stöðvað innflutning samstundis; um ákveðið ferli væri að ræða.

Stjórnvöld vestanhafs lögðu fyrr á árinu 50 prósent toll á allan innflutning frá Indlandi og hafa sömuleiðis daðrað við alsherjarviðskiptastríð við Kína. Líkt og hann er orðinn þekktur fyrir, hefur Trump ýmist haft í hótunum við ríkin, eða slegið sáttartón og talað um mikinn vinskap og gagnkvæma virðingu.

Áhyggjur eru uppi af því að aðferðafræði Trump muni á endanum koma honum og Vesturlöndum í koll, þar sem hún virðist hafa eflt samstöðu meðal þeirra ríkja sem hann hefur beint sjónum sínum að. Þannig má nefna heimsókn Modi, Vladimir Pútín Rússlandsforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu til Kína í september.

Þá hljóta menn að spyrja sig að því hvernig samskipti Trump og Pútín munu þróast samhliða því að Bandaríkjaforseti freistar þess að neyða önnur ríki til að hætta að versla við Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×