Innlent

Óttast um geð­heilsu for­eldra nái breytingarnar fram að ganga

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Svava Arnardóttir er ein þeirra sem skilað hefur inn umsögn til borgarinnar vegna málsins.
Svava Arnardóttir er ein þeirra sem skilað hefur inn umsögn til borgarinnar vegna málsins. Vísir

Einstæð móðir segir ábyrgð á sprungnu leikskólakerfi vera velt yfir á foreldra með breytingum á gjaldskrá leikskóla í Reykjavík. Hún segist óttast um geðheilsu foreldra nái tillögurnar fram að ganga.

Reykjavíkurborg kynnti í byrjun október miklar breytingar á gjaldskrá leikskóla og er málið nú í samráðsferli. Gert er ráð fyrir 25 prósenta afslætti sé barn sótt klukkan tvö eða fyrr á föstudögum og að maímánuður sé ókeypis séu skráningardagar ekki nýttir. Breytingunum er ætlað að tryggja fyrirsjáanleika í þjónustu. Greint var frá því á Vísi í dag að leikskólagjöld einstæðra foreldra gætu allt að þrefaldast. 

Ábyrgðinni velt yfir á foreldra

Svava Arnardóttir er móðir sem eignaðist barn með gjafasæði, því með titilinn einstök móðir, og er ein þeirra sem skilað hefur inn umsögn til borgarinnar vegna málsins.

„Eins og staðan er núna þá borga ég tæpar 25 þúsund krónur mánaðarlega fyrir vistun barnsins míns, sökum þess að ég er einstök móðir og eina foreldri barnsins þá fæ ég afslátt og það er gert ráð fyrir mér inni í kerfinu en ef tillögurnar ná fram að ganga mun ég verða rukkuð 66,774 krónur fyrir óbreytta vistun auk viðbótarkostnaðar fyrir skráningardaga og fæ ekki afslátt líkt og þau sem ná að hafa barnið meira heima,“ segir Svava í samtali við fréttastofu. 

Það sé um 167 prósent hækkun á einu bretti. Svava er að vinna fulla vinnu í miðborg Reykjavíkur og með barn í fullri vistun á leikskóla í Grafarvogi. „Þannig ég ver ómældum tíma í samgöngur á hverjum degi. Ég er um sjö mínútur að keyra barnið á leikskóla og svo um 25 að keyra til vinnustaðar, aðra leiðina. Ef ég er óheppin í umferðinni get ég verið allt að 40 mínútur, mest 50 mínútur að keyra að sækja. Þannig allur helsti sveigjanleiki vinnustaðarins og stytting vinnuviku hefur farið í það svigrúm að ná að sækja og skutla innan þessa tíma.“

Breytingarnar feli í sér að ábyrgð á sprungnu kerfi sé velt yfir á foreldra og segist Svava óttast um geðheilsu foreldra verði þær að veruleika. „Fólk mögulega neyðist til þess að sækja börnin fyrr og ljúka vinnudegi heima, jafnvel á kvöldin eftir að barnið fer að sofa og það er ekki hægt að reikna með að þetta sé endilega mikil gæðastund ef foreldrar eru að reyna að klára vinnudaginn heima og barnið jafnvel sett fyrir framan sjónvarp. Ég sé þetta einungis þannig að þetta eykur streitu í núverandi aðstæðum sem eru nú þegar ansi þungar fyrir mörg okkar.“

Umsögn Svövu í samráðsgátt borgarinnar: 

Ég er einstök móðir með takmarkað bakland. Að vera einstök móðir þýðir að ég valdi að eignast barn með gjafasæði, og barnið mitt á ekki annað foreldri. Barnið mitt á blessunarlega afa sem hefur stundum getað stokkið til og létt undir með mér, þar sem ég er í fullu starfi til að hafa í okkur og á.

Í fyrirhuguðum tillögum sárvantar að gera taka tilliti til mismunandi aðstæðna og baklands barnanna. Einstætt foreldri gæti mögulega stytt vistun og sótt barn sitt fyrr aðra vikuna, og unnið upp skuldir hina vikuna þegar hitt foreldrið sinnir barnaumönnuninni. Að ónefndu mögulega tvöfalt stærra baklandi. En hvað um þá foreldra sem hafa ekki slíkan valkost?

Barnið mitt er með 42.5 klst vistun. Ekki út af því að ég vilji ekki verja sem mestum tíma með því, heldur af nauðsyn. Ég er 7 mín að keyra barnið á leikskólann, og svo um 25 mín að keyra til vinnustaðar. Það er aðra leiðina. Ef ég er óheppin í umferðinni hef ég verið 40, mest 50 mín að keyra úr miðbænum upp í Grafarvog. Allur helsti sveigjanleiki vinnustaðar auk styttingu vinnuviku fer einfaldlega í svigrúmið til að ná að sækja og skutla.

Ég er eina fyrirvinna heimilisins og sinni öllu sem þarf. Ég borga 24.858 kr mánaðarlega fyrir vistun barnsins míns. Ef tillögurnar ná fram að ganga mun ég vera rukkuð fyrir 66.774 kr, auk viðbótarkostnaðar fyrir skráningardaga og fæ ekki afslátt líkt og þau sem ná að hafa barnið meira heima. Þetta er 167% hækkun, á einu bretti.

Þessar aðgerðir koma ekki vel út fyrir þau sem hafa minni sveigjanleika í starfi eða þurfa að vinna fulla vinnuviku til að hafa í sig og á. Hvað um foreldra með minna bakland eða ekki í parasambandi? Hvað um þau sem vinna ekki á sama blettinum og leikskóli og heimili, og sitja löngum stundum kófsveitt í umferðinni, með stressið í botni að reyna að sækja innan ákveðins tíma? Dæmið gengur bara ekki upp, en þessar tillögur mismuna sérstaklega þeim sem standa nú þegar höllum fæti.

Við viljum öll að starfsumhverfi leikskólastarfsfólks laði að og haldi í færa starfskrafta sem hafa hugsjón og drifkraft fyrir vinnunni. Í þessum tillögum er kostnaðinum og ábyrgðinni á sprungnu kerfi er velt yfir á foreldra, með tilheyrandi auka álagi, áhyggjum og tímapressu. Ég hef miklar áhyggjur af geðheilsu foreldra nái þessar tillögur fram að ganga.


Tengdar fréttir

Ekki láglaunakvenna að axla á­byrgð á inn­leiðingu kynjajafnréttis

Formaður Eflingar heimsótti í morgun nokkra leikskóla í Reykjavík þar sem hún kynnti könnun félagsins á afstöðu starfsfólks leikskóla til breytinga á gjaldskrá leikskóla. Hún segir breytingar muni henta félagsmönnum Eflingar, ekki bara starfsfólki. Hún segist undrast málflutning annarra verkalýðsfélaga vegna málsins.

Óttast áhrifin á vinnandi mæður

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir tillögur meirihlutans um breytingar á gjaldskrá leikskóla koma niður á ákveðnum hópum en borgarfulltrúi Vinstri grænna segir þær eiga eftir að fara í samráð. Tekist var á um tillögurnar á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Fólk að bugast þar til hætt var að manna vaktir á föstudögum

Aðstoðarleikskólastjóri í Reykjavík og foreldri barns á leikskóla lýsir mikilli þreytu meðal starfsmanna leikskóla vegna fáliðunar. Stanslaus símtöl til foreldra sem þurfi að sækja börnin sín fyrr og ekkert hafi batnað fyrr en farið var í fasta fáliðun á föstudegi. Þá loks hafi faglega starfið farið að blómstra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×