Innlent

Fólk hafi dreymt um að eignast flugstjóradress

Oddur Ævar Gunnarsson og Rafn Ágúst Ragnarsson skrifa
Komin í flugmannsdressið.
Komin í flugmannsdressið. Vísir/Lýður Valberg

Svokölluð pop-up-sala fór fram í Mosfellsbæ í dag á ýmsum varningi tengdum flugfélaginu Play.

Það var margt um manninn og ákveðin eftirvænting í loftinu þegar fréttamann og tökumann bar að garði í Hlégarði í dag. Þar stóð Alexander Kárason fyrir svokölluðum pop-up-markaði á alls konar varningi tengdum hinu fallna flugfélagi Play. Alexander keypti allan fatnað og fleira til af þrotabúi Play og segist hafa ákveðið það í einhvers konar bríaríi.

„Síðan er bara búið að vera að rigna inn alls konar skilaboðum frá fullt af fólki sem hefur viljað eignast sett af flugfreyjum eða flugstjóra. Þannig að við ákváðum að henda upp smá markaði og hleypa fólki hérna inn og gera góðan díl svo fólk geti labbað út í settum,“ segir Alexander.

Flugstjórafötin eru vinsæl hjá öllum aldurshópum.Vísir/Lýður Valberg

Hann segir það hafa komið sér mikið á óvart hve mikill áhugi sé á fatnaðinum. Fólk sæki í þá ýmist til að eiga minjagrip um Play eða bara til að kaupa sér föt á fínu verði. Ákveðin föt séu þó vinsælli en önnur.

„Flugmaðurinn er alltaf vinsæll. Það er draumur hjá mörgum að eiga heilt sett með húfunni og strípunum á erminni og öllu þessu dóti. Síðan er það flugfreyjudressið, dragtirnar og kjólarnir. Þetta er flott og fer konum vel. Það er virkilega gaman að sjá að fólk hefur gaman af því að nota þetta.“

Hann segist fastlega gera ráð fyrir því að annar markaður með varningi fari fram von bráðar. Nóg sé til. Í raun sé um ákveðið umhverfismál að ræða.

„Nýta það sem til er. Við þurfum ekki að vera að henda öllu og farga milljón bollum bara því það eru prentuð einhver merki. Það er óþarfi,“ segir Alexander




Fleiri fréttir

Sjá meira


×