Körfubolti

Elvar skoraði tólf í naumu tapi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elvar Már í leik með íslenska landsliðinu.
Elvar Már í leik með íslenska landsliðinu. vísir / hulda margrét

Íslenski landsliðsmaðurinn Elvar Már Friðriksson skoraði tólf stig fyrir Anwil Wloclawek er liðið mátti þola naumt tveggja stiga tap gegn Szczecin í pólsku deildinni í körfubolta í dag, 92-94.

Elvar og félagar voru fjórum stigum undir eftir fyrsta leikhlutann og munurinn var enn sá sami þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja, staðan 43-47.

Gestirnir í Szczecin sigu svo fram úr í þriðja leikhluta og leiddu með 13 stigum þegar fjórði og síðasti leikhluti leiksins hófst.

Elvar og félagar gáfust þó ekki upp og klóruðu sig jafnt og þétt til baka inn í leikinn. Heimamenn náðu að minnka muninn niður í tvö stig þegar um mínúta var eftir af leiknum, en nær komust þeir ekki og niðurstaðan varð tveggja stiga sigur Szczecin, 92-94.

Elvar skoraði tólf stig fyrir Anwil í leik dagsins, tók eitt frákast og gaf sex stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×