Lífið

Grateful Dead-söngkona látin

Atli Ísleifsson skrifar
Donna Jean Godchaux-MacKay á tónleikum árið 2016.
Donna Jean Godchaux-MacKay á tónleikum árið 2016. Getty

Bandaríska söngkonan Donna Jean Godchaux-MacKay, sem var um árabil söngkona í sveitinni Grateful Dead, er látin, 78 ára að aldri.

Talsmaður Godchaux-MacKay segir hana hafa látist af völdum krabbameins í Nashville síðastliðinn sunnudag.

Godchaux-MacKay var messósópran sem vakti meðal annars athygli sem bakraddasöngkona í lögum á borð við Suspicious Minds og When a Man Loves a Woman á sjöunda áratugnum og þá var hún söngkona sveitarinnar Grateful Dead mestan hluta áttunda áratugarins.

Godchaux-MacKay og aðrir meðlimir Grateful Dead voru teknir inn í Frægðarhöll rokksins árið 1994.

Godchaux-MacKay fæddist Donna Jean Thatcher í Florence í Alabama og söng mikið inn á sálar- og blúsplötur. Hún var bakrödd í flutningi Elvis Presley á Suspicious Minds, flutningi Percy Sledge á When a Man Loves a Woman, auk fjölda laga með Neil Diamond, Boz Scaggs og Cher, að því er segir í frétt Variety.

Þáverandi eiginmaður hennar, Keith Godchaux, gekk til liðs við Grateful Dead á áttunda áratugnum og áttu þau eftir að syngja inn á sjö plötur sveitarinnar, meðal annars Terrapin Station, Shakedown Street og From the Mars Hotel.

Hjónin sögðu skilið við Grateful Dead árið 1979 og ætluðu sér að stofna eigin sveit en Keith lést árið 1980 í kjölfar bílslyss.

Donna giftist svo bassaleikaranum David MacKay árið 1981.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.