Skoðun

Allir eru að gera það gott….

Margrét Júlía Rafnsdóttir skrifar

Eða hvað?

Ísland státar af mikilli velsæld og einna jöfnustu kjörum í vestrænum heimi. Á Íslandi er neysla mikil og ekki mikill skortur sjáanlegur á yfirborðinu. En skyldu allir vera að gera það gott, eða hafa það svo gott? Umræða um fátækt á Íslandi hefur ekki farið hátt undanfarin misseri. Þó er vitað að einhver hluti fólks á Íslandi býr við fátækt, skort, óöryggi í húsnæðismálum, kvíða og vanmætti yfir því að geta ekki veitt sér eða börnum sínum það sem almennt er talið til sjálfsagðra lífsgæða, svo sem tómstundir.

Þau börn sem búa við fátækt eru líklegri að búa áfram við fátækt sem fullorðnir einstaklingar. Fullorðnir einstaklingar sem búa við fátækt hafa ekki fengið tækifæri sem skyldi til að brjótast úr úr fátæktinni og oftar en ekki hefur fátæktin fylgt þeim frá barnsaldri.

Til að vinna að því að uppræta fátækt þarf fyrst og fremst að móta stefnu og aðgerðaáætlun til að framkvæma slíkt. Slík stefna hefur aldrei verið til á Íslandi. Að uppræta fátækt er ákvörðun sem hægt er að taka ef vilji er fyrir hendi hjá stjórnvöldum.

Við sem samfélag eigum að hlúa að öllum þegnum samfélagsins og tryggja að öll geti lifað með reisn og án fátæktar. AMSIS hvetja stjórnvöld til að sýna dug og uppræta fátækt á Íslandi.

Höfundur er í stjórn AMSIS




Skoðun

Sjá meira


×