Sport

Goð­sögnin sem tor­tímdi ferlinum hand­tekinn í Dúbæ og fram­seldur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Brown sést hér rífa sig úr og yfirgefa völlinn í miðjum leik. Þetta var hans síðasti leikur í NFL.
Antonio Brown sést hér rífa sig úr og yfirgefa völlinn í miðjum leik. Þetta var hans síðasti leikur í NFL. Getty/Andrew Mills

Antonio Brown, fyrrverandi besti útherji NFL-deildarinnar, hefur verið handtekinn vegna ákæru um morðtilraun í tengslum við skotárás eftir hnefaleikaviðburð síðasta vor.

Mike Vega talsmaður lögreglunnar í Miami sagði að Brown, 37 ára, hefði verið handtekinn af bandarískum alríkislögreglumönnum í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hann var fluttur með flugi til Essex-sýslu í New Jersey, þar sem hann er í haldi og bíður framsals til Miami, sagði Vega.

Ekki var ljóst hvers vegna Brown var fyrst fluttur til New Jersey eða hversu lengi hann hafði verið í Dúbaí, þótt hann hafi birt nokkrar færslur þaðan á samfélagsmiðlum undanfarna mánuði.

Tók skammbyssu af öryggisverði

Samkvæmt handtökuskipun sem lýsir skotárásinni 16. maí er Brown sakaður um að hafa tekið skammbyssu af öryggisverði eftir hnefaleikabardagann og skotið tveimur skotum á mann sem hann hafði slegist við fyrr um daginn. Maðurinn, Zul-Qarnain Kwame Nantambu, sagði rannsakendum að önnur kúlan hefði snert háls hans.

Lögreglan yfirheyrði Brown þá en sleppti honum eftir nokkrar klukkustundir og hann birti skýringu á samfélagsmiðlum daginn eftir.

Reyndu að stela skartgripunum mínum

„Margir einstaklingar réðust á mig, reyndu að stela skartgripunum mínum og valda mér líkamlegum skaða,“ skrifaði Antonio Brown á X-reikning sinn.

„Andstætt sumum myndböndum sem eru í dreifingu, þá tók lögreglan mig tímabundið í gæslu þar til hún fékk mína hlið á málinu og sleppti mér síðan. ÉG FÓR HEIM ÞETTA KVÖLD OG VAR EKKI HANDTEKINN. Ég mun ræða við lögfræðiráðgjafa mína og lögmenn um að leggja fram kærur á hendur þeim einstaklingum sem réðust á mig,“ skrifaði Brown.

Handtökuskipun á hendur Brown vegna ákæru um morðtilraun var gefin út 11. júní. Ákæra fyrir annars stigs morðtilraun getur varðað allt að fimmtán ára fangelsi og allt að tíu þúsund dollara sekt ef sakfellt er.

Oft komist í kast við lögin

Brown, sem lék í tólf ár í NFL-deildinni, var frábær útherji sem lék síðast árið 2021 með Tampa Bay en var lengst af á ferli sínum hjá Pittsburgh. Á ferlinum náði Brown 928 sendingum fyrir meira en 12.000 jördum og 83 snertimörkum.

Brown hefur oft komist í kast við lögin í gegnum árin. Hann hefur áður verið sakaður um líkamsárás á flutningabílstjóra, nokkrar ákærur um heimilisofbeldi, vanrækslu á meðlagsgreiðslum og önnur atvik. Í leik með Tampa Bay gegn New York Jets árið 2021 fór Brown úr treyjunni, herðahlífunum og hönskunum og hljóp af vellinum í miðjum leik, sem leiddi til þess að Buccaneers riftu samningi hans og batt í raun enda á feril hans í amerískum fótbolta.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×