Viðskipti innlent

Ráðin fram­kvæmdastýra Ljós­leiðarans

Atli Ísleifsson skrifar
Þuríður Björg Guðnadóttir.
Þuríður Björg Guðnadóttir.

Stjórn Ljósleiðarans hefur ráðið Þuríði Björgu Guðnadóttur í starf framkvæmdastýru félagsins. Hún tekur við starfinu af Einari Þórarinssyni sem hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Ljósleiðarans síðustu ár.

Frá þessu segir í tilkynningu frá Orkuveitunni. Þar kemur frma að Þuríður sé vel kunnug fjarskiptum en hún komi til félagsins eftir áralangan og farsælan feril hjá fjarskiptafélaginu Nova. 

„Hún hefur verið hluti af uppbyggingu og þróun fyrirtækisins allt frá stofnun þess og hefur setið í framkvæmdastjórn frá árinu 2017.

Þuríður situr í stjórn VÍS trygginga og sat áður í stjórn Lyfju. Hún er með BS-gráðu í rekstrarverkfræði og hefur lokið námi í Executive Coaching frá Háskólanum í Reykjavík.“

Haft er eftir Dagnýju Hrönn Pétursdóttur, stjórnarformanni Ljósleiðarans, að stjórnin fagni því að fá Þuríði til liðs við Ljósleiðarann á þessum spennandi tímum. „Hún kemur með mikla reynslu af fjarskiptum, þjónustu og vörumerkjastjórnun, auk þess sem hún hefur einstaka hæfileika til að byggja upp öfluga þjónustumenningu og hvetjandi starfsanda. Ljósleiðarinn gegnir lykilhlutverki í uppbyggingu öruggra og háhraða innviða fyrir íslenskt samfélag og með Þuríði við stjórnvölinn styrkjum við enn frekar stöðu okkar á þeim vettvangi,“ segir Dagný Hrönn. 

Þá er haft eftir Þuríði Björg sjálfri að Ljósleiðarinn hafi byggt upp þjónustu og innviði sem skipti samfélagið miklu máli og hlakki hún til að taka þátt í þeirri vegferð. „Fyrirtækið er í lykilstöðu þegar kemur að framtíðaruppbyggingu innviða á Íslandi og ég sé mikla möguleika í því að efla tengsl við viðskiptavini, samstarfsaðila og eigendur. Ég tek við keflinu af Einari með mikilli virðingu fyrir því góða starfi sem hann hefur leitt, og hlakka til að vinna að þeim mikilvægu verkefnum sem eru framundan með kraftmiklum hópi starfsfólks Ljósleiðarans,“ segir Þuríður Björg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×