Innlent

Loft­gæði verði á­fram slæm

Eiður Þór Árnason og Smári Jökull Jónsson skrifa
Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfis- og orkustofnun
Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfis- og orkustofnun Sýn

Hæglætisveður hefur verið á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga og er spáð áfram. Það hefur þau áhrif að svifryksmengun eykst og loftgæði hafa mælst óholl á nokkrum stöðum undanfarið.

Á morgun, fimmtudag er útlit fyrir að loftgæðin verði slæm á höfuðborgarsvæðinu, bæði um morguninn og seinni part dags. Verst verður staðan á þekktum álagspunktum í umferðinni á borð við þung gatnamót.

Loftgæði teljast slæm ef gróft svifryk mælist yfir hundrað míkrógrömm á hvern rúmmetra og hefur mengun hefur farið yfir heilsuverndarmörk nokkrum sinnum síðustu tvo daga.

„Heilt séð ef við horfum svona þrjátíu ár aftur í tímann þá erum við í miklu betri málum. Það var miklu meiri svifryksmengun hérna áður. Bæði var aðeins öðruvísi veðurfar og svo er malbikið orðið miklu betra í dag,“ sagði Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfis- og orkustofnun, í kvöldfréttum Sýnar.

Svifryksmengun fór yfir heilsuverndarmörk í Kópavogi á þriðjudag og miðvikudag.Sýn

Rykbinding dugi skammt

Eitt af úrræðunum sem hægt er að grípa til þegar mengun er mikil sé að rykbinda götur en Þorsteinn bendir á að þetta sé einungis tímabundið bjargráð.

„Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðin rykbundu götur í morgun. Það er að virka í svona einn, tvo, kannski þrjá sólarhringa á eftir.“ Það geti dugað ef það fylgi rigning eða snjókoma í kjölfarið sem stöðvi rykið.

Hann bendir á að ekki sé einungis um að ræða mengun frá ökutækjum.

„Á svona hægviðrisdögum þar sem það er kalt og hitahvarf og ef það er austanátt þá fáum við til dæmis mengunina frá orkuverunum á Nesjavöllum og Hellisheiðarvirkjun. Hún var til dæmis í gær og fyrradag, reyndar ekki yfir neinum heilsuverndarmörkum en greinileg sums staðar, og þetta er mengun sem hefur sannarlega áhrif á raftæki og getur stytt líftíma raftækja,“ segir Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×