Úkraína - Ís­land 2-0 | Krömdu aftur hjörtu Ís­lendinga

Ingvi Þór Sæmundsson og Sindri Sverrisson skrifa
Hörður Björgvin Magnússon var mættur í vörn Íslands eftir mikla fjarveru og er hér í baráttu við Vladyslav Vanat.
Hörður Björgvin Magnússon var mættur í vörn Íslands eftir mikla fjarveru og er hér í baráttu við Vladyslav Vanat. Getty/Sebastian Frej

Annað árið í röð náðu Úkraínumenn að slökkva vonir Íslands um að komast á stórmót í fótbolta karla, með 2-0 sigri í afar spennandi slag liðanna í Varsjá í dag í lokaumferð undankeppni HM. Mörkin má sjá hér að neðan.

Íslandi hefði dugað jafntefli til að ná 2. sæti D-riðils og komast í HM-umspilið í lok mars en þess í stað fer Úkraína í það umspil.

Lengi vel var útlit fyrir að raunin yrði önnur en Oleksandr Zubkov kom Úkraínu yfir á 83. mínútu, einn og óvaldaður með skalla af fjærstöng. Oleksiy Gutsulyak bætti svo við marki seint í uppbótartíma og sigur Úkraínu staðreynd, tuttugu mánuðum eftir að Úkraína vann 2-1 sigur gegn Íslandi í úrslitaleik umspils um sæti á EM.

Oleksandr Zubkov fagnar markinu sem kom Úkraínu yfir í kvöld.Getty/Sebastian Frej

Arnar Gunnlaugsson er djarfur þjálfari. Það hefur hann sýnt frá fyrstu mínútu með íslenska landsliðinu. Það kom samt eflaust mörgum á óvart að sjá breytingarnar á liðinu frá því í 2-0 sigrinum gegn Aserum, því í byrjunarliðið fyrir þennan stórleik voru mættir Hörður Björgvin Magnússon (enginn mótsleikur fyrir landsliðið frá því 2023, fyrir krossbandsslit) og Brynjólfur Andersen Willumsson (aldrei byrjað mótsleik fyrir landsliðið), auk Jóns Dags Þorsteinssonar.

Fengu að skjóta áfram utan teigs

Arnar var búinn að lofa að Ísland myndi ekki leggjast í vörn og það sýndi liðið strax á upphafskaflanum. Úkraínumenn virtust að sama skapi ekki vera að stressa sig á hlutunum, þó að ljóst væri frá byrjun að þeir þyrftu að skora og vinna leikinn.

Þegar leið á fyrri hálfleikinn komu hins vegar fáein tækifæri hjá heimamönnum sem vöktu hroll, aðallega vegna þess hvernig mörk þeir skoruðu í Laugardalnum í síðasta mánuði. Oleksandr Zubkov mundaði skotfótinn í ágætum stöðum og Viktor Tsyhankov fékk nægt pláss til að taka þrumuskot úr vítateigsboganum, beint í slána og út.

Tilefnið virtist hafa sín áhrif á íslenska liðið og mönnum gekk illa að halda í boltann og skapa sér færi fram á við. Að sama skapi fengu Úkraínumenn engin dauðafæri og staðan í hálfleik, 0-0, var sanngjörn.

Hákon Arnar Haraldsson og Vladyslav Vanat í baráttu í Varsjá í kvöld.Getty/Sebastian Frej

Strax í upphafi seinni hálfleiks komst Brynjólfur í besta færi Íslands fram að því, þegar hann skallaði af stuttu færi eftir frábæra fyrirgjöf Ísaks Bergmanns Jóhannessonar. Anatoliy Trubin rétt náði að verja í horn.

Áfram var helsta hætta úkraínska liðsins sú þegar liðið fann sér skotfæri nærri vítateig Íslands. Zubkov átti fast skot eftir klukkutíma leik en Elías Rafn Ólafsson varði. Ef skotin hefðu virkað jafn vel hjá Úkraínu og í Laugardalnum hefði staðan þarna getað verið orðin að minnsta kosti 3-0, þó það væri mjög ósanngjarnt.

Ótrúleg markvarsla Trubin

Þegar leið á seinni hálfleikinn var pressan orðin afar þung hjá Úkraínumönnum og Ísland komst sjaldnast með boltann fram fyrir miðju. Hafi stefnan verið að sækja til sigurs þá var búið að breyta um kúrs síðasta hálftímann og menn fóru að nýta þau tækifæri sem gáfust til að stoppa gang leiksins.

Arnar setti meðal annars reynsluboltann Jóhann Berg inná, í 101. landsleikinn, til að hjálpa liðinu að eiga við alla spennuna og stressið sem svo sannarlega var nóg af.

Korteri fyrir leikslok braut Trubin einhver eðlisfræðilögmál þegar hann náði að verja skalla Guðlaugs Victors af stuttu færi, eftir aukaspyrnu Alberts. Þarna var tækifæri sem hægt er að svekkja sig á lengi.

Albert Guðmundsson sækir að Viktor Tsygankov.Getty/Sebastian Frej

Þetta færi var aðeins eitt frávik frá þungri sókn Úkraínu sem hélt svo áfram, og Elías Rafn sýndi enn betri tilþrif en Trubin þegar hann varði tvær tilraunir í röð frá Roman Yaremchuk.

Langt í næsta stórmót

En eitthvað varð undan að láta og Zubkov skoraði eins og fyrr segir, tæpum tíu mínútum fyrir leikslok, eftir hornspyrnu. Óhemju svekkjandi og rannsóknarefni hvernig menn gátu steingleymt honum á fjærstöng. Þar með gjörbreyttist leikmyndin og Ísland varð að skora en það skilaði sáralitlu og í uppbótartímanum innsiglaði Gutsulyak sigurinn með skoti sem fór af Guðlaugi Victori og í netið.

Þar með er orðið langt í næsta stórmót fyrir Ísland. Næsti möguleiki er Evrópumótið 2028 og leiðin þangað hefst ekki fyrr en með keppni í Þjóðadeildinni næsta haust.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira