Sport

Goð­sögnin verð­launuð með hrein­dýri frá jóla­sveininum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikaela Shiffrin fagnar með nýjasta hreindýrinu sínu.
Mikaela Shiffrin fagnar með nýjasta hreindýrinu sínu. Getty/Christophe Pallot

Bandaríska skíðagoðsögnin Mikaela Shiffrin fagnaði sigri í fyrsta svigmóti heimsbikarsins sem er eitthvað sem við höfum séð margoft áður. Það er ekki hægt að segja það sama um verðlaunaafhendinguna sem hefur skapað þessu árlega móti mikla sérstöðu.

Bandaríska skíðagoðsögnin Mikaela Shiffrin fagnaði sigri í fyrsta svigmóti heimsbikarsins sem er eitthvað sem við höfum séð margoft áður. Það er ekki hægt að segja það sama um verðlaunaafhendinguna sem hefur skapað þessu árlega móti mikla sérstöðu.

Shiffrin byrjaði tímabilið vel en það hófst með svigmóti í Levi, skíðasvæði í finnskum hluta Lapplands, sem er hluti af stærra svæði Sápmi og er langt norðan við heimskautsbaug.

Mikaela Shiffrin með sjálfum jólasveininumGetty/Christophe Pallot

Finnarnir gefa ekkert eftir í baráttunni um að eigna sér jólasveininn og verðlaunaafhendingin er gott dæmi um það.

Jólasveinninn mætti til Shiffrin á verðlaunapallinn og afhenti henni hreindýr að gjöf.

„Ég treysti á æfingarnar og góða vinnu sumarsins,“ sagði þessi þrítuga skíðakona, sem mun keppa um sín þriðju Ólympíugullverðlaun á leikunum í Mílanó-Cortina í febrúar næstkomandi. Shiffrin var fljótust í báðum ferðum og sigraði albanska táninginn Lara Colturi með 1,66 sekúndna mun.

„Það var virkilega gaman að keppa í dag. Á þessu tímabili er mikilvægt að byrja með virkilega gott hugarfar. Ég er bara ofboðslega glöð. Þetta er farið að líkjast meira heimili. Það er líka farið að líkjast jólum,“ sagði Mikaela Shiffrin kát.

Það sérstaka við þetta er að það er mikil hefð fyrir slíkum verðlaunum á mótinu í Finnlandi og það þekkir Shiffrin líka vel.

Þetta var níundi sigur hennar í Levi, sem þýðir að hún mun bæta níunda hreindýrinu við hjörðina sína, sem býr á bóndabæ í nágrenninu. Shiffrin heimsótti hin átta, Rudolph, Sven, Mr Gru, Ingemar, Sunny, Lorax, Grogu og Rori, í fyrra. Þau fara því ekki með henni aftur til Bandaríkjanna en hún er komin með heila hreindýrahjörð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×