Handbolti

„Pabbi, ertu að fara að deyja?“

Sindri Sverrisson skrifar
Anton Månsson lék meðal annars með sænska landsliðinu og er hér í leik gegn Þjóðverjum. Hann er nú á sínu síðasta keppnistímabili.
Anton Månsson lék meðal annars með sænska landsliðinu og er hér í leik gegn Þjóðverjum. Hann er nú á sínu síðasta keppnistímabili. Getty/Axel Heimken

Handboltamaðurinn Anton Månsson, fyrrverandi landsliðsmaður Svíþjóðar, hefur greinst með eitilfrumukrabbamein. Hann kveðst staðráðinn í að vinna mikilvægustu rimmu ævi sinnar en átti erfitt með að segja börnum sínum frá veikindunum.

Læknar héldu í fyrstu að Månsson, sem er 36 ára, hefði fengið sýkingu og gáfu honum sýklalyf. Það hjálpaði ekkert til en eftir tólf daga og frekari rannsóknir kom krabbameinið í ljós.

Månsson og Nadja, eiginkona hans, ákváðu að segja börnum sínum frá þessum hræðilegu fréttum.

„Yngsta barnið mitt spurði beint: „Pabbi, ertu að fara að deyja núna?“ Það er auðvitað erfitt að heyra það. Eldri sonur minn, sem er að verða níu ára, er þolinmóðari og hlustar betur. Hann skilur að þetta er alvarlegt,“ sagði Månsson við Aftonbladet.

„Eins og staðan er núna er ég aðallega þreyttur og lít ekki mjög veiklulega út en það mun breytast í meðferðinni. Ég mun líta öðruvísi út og líklega verður litið á mig með öðrum hætti,“ sagði Månsson.

Hann er á lokaári ferilsins eftir að hafa til að mynda spilað með Melsungen, Lemgo og Minden í Þýskalandi, auk sænska landsliðsins. Síðustu ár hefur hann hins vegar leikið með Ystad heima fyrir og félagið sendir honum hlýjar kveðjur.

„Ystads IF styður heils hugar við Anton Månsson og fjölskyldu hans á þeim erfiðu tímum sem nú bíða í meðferðinni við krabbameininu. Anton hefur verið fjarverandi um tíma og við skiljum að margir hafi velt því fyrir sér, en nú þegar hann hefur sjálfur valið að segja frá þessu biðjum við alla um að sýna einkalífi hans og fjölskyldu hans fyllstu virðingu og tillitssemi.

Nú hefur Anton aðeins einn leik til að einbeita sér að. Það er sá mikilvægasti af öllum. Og við vitum að hann mun takast á við hann með viljastyrk sínum og óþrjótandi baráttuanda,“ skrifar félagið á Instagram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×