Körfubolti

Sú dáðasta í sögu liðsins mætti í dular­gervi og plataði alla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sabrina Ionescu var alveg til í að bregða á leik og mæta á leikinn í dulargervi.
Sabrina Ionescu var alveg til í að bregða á leik og mæta á leikinn í dulargervi. Getty/Supriya Limaye/

Körfuboltakonan Sabrina Ionescu er án efa dáðist körfuboltaleikmaður Oregon-háskólans enda kom hún skólanum hreinlega á körfuboltakortið á tíma sínum í skólanum.

Ionescu var í Oregon-háskólanum frá 2016 til 2020 og var síðan valin fyrst í nýliðavalinu WNBA 2020.

Með Oregon-háskólaliðinu var hún með 18,0 stig, 8,6 fráköst og 9,1 stoðsendingu að meðaltali í leik og er sú sem hefur náð flestum þreföldum tvennum í sögu háskólakörfuboltans eða 26.

Það þarf ekkert að efast um að það yrði allt vitlaust ef áhorfendur á Oregon-leik vissu að Ionescu væri í húsinu.

Það var þó ekki svo um helgina þegar Ionescu mætti á leik liðsins. Ástæðan var að hún mætti í dulargervi og plataði alla. Hún tók þátt í vítaskotkeppni í hálfleik og hitti úr 23 af 25 skotum sínum eins og sjá má hér fyrir neðan.

Ionescu var þarna að taka þátt í „Undercover for Amazon“ þáttunum og það er óhætt að segja að það hafi tekist vel að fela sig í dulargervi.

Henni var vel fagnað og mikið hlegið þegar áhorfendur uppgötvuðu að goðsögn skólans hefði platað þá upp úr skónum. Hæfileikarnir leyndu sér auðvitað ekki og svo tók hún niður hárkolluna og af sér nefið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×