Körfubolti

Missir af stór­leik í kvöld eftir rusla­tunnu­fía­skóið

Sindri Sverrisson skrifar
DeAndre Kane var hundóánægður með að vera rekinn úr húsi gegn ÍR og endaði svo á að sparka í ruslatunnu á leið inn í klefa.
DeAndre Kane var hundóánægður með að vera rekinn úr húsi gegn ÍR og endaði svo á að sparka í ruslatunnu á leið inn í klefa. Sýn Sport

Topplið Grindavíkur verður án eins besta leikmanns Bónus-deildarinnar í körfubolta í kvöld, í stórleiknum gegn Tindastóli, eftir að DeAndre Kane var úrskurðaður í eins leiks bann.

Kane hlaut bannið og 80.000 króna sekt vegna háttsemi sinnar í sigri Grindavíkur gegn ÍR í síðustu viku.

Kane fékk tvær tæknivillur í röð fyrir kröftug mótmæli og var rekinn úr húsi, hundóánægður með dómara leiksins. Hann lét ekki þar við sitja heldur sparkaði í ruslatunnu sem fór í starfsmann á leiknum, án þess þó að honum yrði meint af.

„Hann verður að fara að hemja sig,“ sagði Sævar Sævarsson þegar rætt var um málið í Körfuboltakvöldi síðastliðið föstudagskvöld.

„Þetta gerist á öllum tímabilum, að hann missir sig, biðst afsökunar og verður væntanlega bara frábær í næsta leik, hvenær sem sá leikur verður,“ sagði Sævar.

Hákon og Kristófer fengu líka sekt

Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ sektaði einnig ÍR-inginn Hákon Örn Hjálmarsson sem rekinn var úr húsi í lok leiksins gegn Grindavík, vegna háttsemi, um 15.000 krónur.

Sömu sögu er að segja af Kristófer Acox sem fékk 15.000 króna sekt vegna háttsemi sinnar í leik með Val gegn Álftanesi, þar sem hann var rekinn úr húsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×