Tónlist

Hlýja og nánd heima og uppi á sviði

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Helgi Björns er alltaf í banastuði á sviðinu.
Helgi Björns er alltaf í banastuði á sviðinu. Aðsend

„Fólk þekkir þetta fyrirkomulag og kann að meta það og við líka,“ segir Helgi Björnsson tónlistarmaður sem er á fullu að undirbúa sig fyrir stórtónleika á laugardaginn næsta. Hann rifjar upp gamla takta og býður fólki líka að horfa á tónleikana heima.

Hér má sjá Helga Björns og Kalla Selló slá á létta strengi í undirbúningnum: 

Klippa: Helgi Björns og Kalli Selló streyma í stuði

Næstum uppselt er á tónleikana í Eldborg á laugardaginn en Helgi er að endurtaka leikinn frá því í fyrra þegar hann marg seldi upp Eldborg í tilefni af fjörutíu ára tónlistarútgáfu afmæli hans. 

Hægt verður að kaupa aðgang að tónleikunum á laugardaginn í streymi en nokkuð er síðan að landsmönnum gafst tækifæri á að vera „Heima með Helga“ sem sló eftirminnilega í gegn í Covid. 

„Hér er þó um streymi frá tónleikum með áhorfendum að ræða og landsmenn fá þannig einstakt tækifæri á að kíkja á tónleika í Eldborgarsal Hörpu, heima í stofu. 

Við erum að leggja áherslu á hlýju og nánd á þessum tónleikum, bæði lagalisti og hljóðfæraskipan bera þess merki,“ segir Helgi um dagskrá laugardagsins og bætir við: 

„Það hefur verið umræða um það að fólk saknaði okkar úr sjónvarpinu og þegar sú umræða fór að sjást í fjölmiðlum ákváðum við að láta slag standa og streyma þessum tónleikum í Eldborg.

Fólk þekkir þetta fyrirkomulag og kann að meta það og við líka.“

Helgi ætlar að leyfa fólki að njóta þess að horfa á hann heima í stofu á laugardag.Aðsend

Hann segir tónleikana setta upp með örlítið öðru sniði í ár.

„Það verður meira áhersla á akústísk hljóðfæri og yfirbragð. Sem fyrr verður einvalalið hljóðfæraleikara með og einnig er að vænta nokkurra kunnuglegra andlita sem hafa unnið náið með mér síðustu ár.“

Hljómsveitina skipa þeir Stefán Már Magnússon kassagítar, rafgítar og sér um hljómsveitarstjórn, Matthías Stefánsson á fiðlu, mandólín og kassagítar, Ásgeir Ásgeirsson á lútur og strengjaleik, Tómas Jónsson á hljómborð, harmoniku og gítara, Einar Valur Scheving á fjölbreytt ásláttarhljóðfæri, Hrafn Thoroddsen á hljómborð og gítar, Guðmundur Óskar á bassa og söng og Ingólfur Sigurðsson á trommur. 

Streymið hefst kl. 21:00 laugardaginn 22. nóvember og er aðgengilegt á Sýn, Símanum og Livey.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.