ÍA - ÍR | Dýr­mæt stig í boði

Sverrir Mar Smárason skrifar
ÍR - Tindastóll Bónus Deild Karla Haust 2025
ÍR - Tindastóll Bónus Deild Karla Haust 2025 vísir/Diego

Skagamenn fengu ÍR í heimsókn í AvAir höllina á Akranesi í Bónus deild karla í kvöld. Fyrir leikinn sátu ÍA í 10. sæti deildarinnar með 4 stig en ÍR í því 8. með 6 stig. Krafturinn í heimamönnum reyndist gestunum ofviða og Skagamenn unnu sinn fyrsta leik í nýju AvAir höllinni við mikinn fögnuð stuðningsmanna.

ÍR-ingar unnu uppkastið og skoruðu í kjölfarið fyrstu fjögur stig leiksins en við það vöknuðu Skagamenn og tóku öll völd á leiknum. Erlendir leikmenn ÍA skiptust á að setja niður þriggja stiga skot í fyrsta leikhluta á meðan gestirnir í ÍR hittu illa. Staðan eftir fyrsta leikhluta 22-15, heimamönnum í vil.

Í öðrum leikhluta gengu skotvandræði ÍR áfram en þeir gerðu ekki nema 3 stig fyrstu 5 mínútur leikhlutans. Skotnýting liðsins fór minnst niður í 29% sem getur varla talist ásættanlegt. ÍA gekk á vaðið og náðu mest 23 stiga forystu en fyrir hálfleikinn náði ÍR að minnka þá forystu niður í 19 stig. Staðan í hálfleik því 49-30, ÍA í vil.

Síðari hálfleikur fór eins af stað og sá fyrri. ÍR skoraði fyrstu stigin en síðan komu Skagamenn á fullri ferð. Skagamenn unnu þriðja leikhluta líkt og þeir gerðu í fyrstu tveimur.

Fjórði leikhlutinn var leikhlutinn hans Jakob Falko. Hann hætti að gefa boltann og skoraði 24 stig í leikhlutanum, þar á meðal fjórar þriggja stiga körfur í röð. ÍR-ingar reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn undir lokin þegar ÍA hafði skipt öllum bekknum inná en munurinn var of mikill og ÍR komst ekki lengra en í 7 stig. Þá reyndist Kristófer Már Gíslason ÍA mjög mikilvægur en hann hélt ÍA á floti undir lokin. Lokatölur 96-89 og ÍA fer upp að hlið ÍR í deildinni með 6 stig.

Atvik leiksins

Það er í upphafi 4. leikhluta þegar ÍR náði 12-0 áhlaupi og Jakob Falko skoraði öll stigin af þriggja stiga línunni. Þ.m.t. gerði hann þrjár á 50 sekúndum. Magnaður leikmaður, Jakob Falko, lang bestur í þessu ÍR liði og eiginlega bara synd að hann sé ekki með aðeins betra lið í kringum sig.

Stjörnur og skúrkar

Josip Barnjak var atkvæðamestur í liði ÍA með 23 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar. Gojko Zudzum var með 17-14-3 og Styrmir Jónasson steig upp á mikilvægum augnablikum.

Jakob Falko stórkostlegur í síðari hálfleik og endaði með 44 stig, 3 fráköst og 6 stoðsendingar.

Tsotne Tsartsidze með 31 framlagsstig, 17-10-3 var flottur.

Dómararnir

Margar skrýtnar villur hjá dómurum leiksins. Bæði stuðningsmannaliðin voru ósátt allan tímann en endar það þá ekki bara alltaf jafnt ef allir eru óánægðir.

Umgjörð og stemning

Mjög góð stemning hjá Skagamönnum. Bæjarbúar klárlega á bakinu á liðinu og augnablikið heldur áfram. Smá last á ÍR hooligans sem voru byrjaðir að urða yfir dómara leiksins eftir fyrstu villu leiksins. Ljót orð og bara algjör óþarfi.

Viðtöl

Kristófer Már Gíslason: Ég elska að spila með ungu strákunum

Kristófer Már Gíslason, leikmaður ÍA, steig upp undir lokinn þegar hann fékk það verkefni að leiða lið ungra Skagamanna yfir línuna síðustu 2-3 mínúturnar.

„Þetta var bara geggjað, geggjað að vinna fyrsta sigurinn í nýju höllinni. Ég held við séum bara að fara að taka fleiri svona leiki hér. Nýji leikmaðurinn okkar (Dibaji Walker) er frábær og næstu leikir eru bara mjög spennandi sama á móti hverjum þeir eru,“ sagði Kristófer Már og hélt svo áfram,

„ég elska að spila með ungu strákunum. Þeir eru geggjaðir. Þeir eru alltaf jákvæðir og duglegir að peppa menn sama hversu lítið þeir fá að spila. Ég elska að vera með þeim í þessu liði.“

Borche: Sjö stiga tap segir ekki alla söguna 

Lokatölur leiksins urðu 7 stiga sigur ÍA en það segir ekki almennilega sögu leiksins því heimamenn voru mest 25 stigum yfir áður en allur bekkurinn fór inná og ÍR minnkaði forystuna. Þjálfari ÍR, Borche Sansa var sammála þeirri staðhæfingu.

„Það er alveg rétt að þetta segir ekki alla söguna. Að lokum, sem þjálfari, þá er ég sáttur við að tapa bara með sjö. Það er algjörlega ótrúlegt. Við spiluðum ekki eins og við vildum í kvöld. Allan leikinn vorum við úr takti bæði sóknarlega og varnarlega. Þegar Jakob setti fjóra þrista í röð héldum við að takturinn kæmi en það gerðist ekki. Varnarlega vorum við slakir og gerðum sömu mistökin aftur og aftur. Klárlega ekki okkar besti leikur,“ sagði Borche, þjálfari ÍR.

ÍR er sem stendur með 6 stig eftir 8 leiki en vilja meira. Borche vill að liðið sæki í gömul gildi ÍR og sýni meiri karakter.

„Deildin er mjög jöfn, við höfum séð það og sáum það á úrslitunum í gær líka. Við þurfum að nálgast leikina rétt og mæta með rétt hugarfar. Leikmennirnir mínir þurfa að skilja það að þeir spila fyrir ÍR, við höfum alltaf verið andlega sterkt lið sem gefst aldrei upp en á þessu ári er hópurinn ekki með mikið sjálfstraust og finnur ekki alveg hvernig hann vill skilgreina sig. Við þurfum að hugsa og tala saman. Við gerum það mikið og greinum mjög mikið en augljóslega er þetta ekki eins og við viljum hafa það,“ sagði Borche að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira