Viðskipti innlent

Bærinn bóta­skyldur og þarf að bjóða líkams­ræktar­stöð út aftur

Kjartan Kjartansson skrifar
World Class hefur rekið líkamsræktarstöð í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja frá því í sumar. Bjóða á út uppbyggingu og rekstur stöðvra á nýju ári eftir að fyrra útboð var ekki talið hafa uppfyllt lög og reglur.
World Class hefur rekið líkamsræktarstöð í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja frá því í sumar. Bjóða á út uppbyggingu og rekstur stöðvra á nýju ári eftir að fyrra útboð var ekki talið hafa uppfyllt lög og reglur. Vísir

Vestmannaeyjabær þarf að bjóða út byggingu og rekstur heilsuræktarstöðvar aftur þar sem hann stóð ekki rétt að því þegar World Class hreppti hnossið fyrr á þessu ári. Þá er bærinn bótaskyldur gagnvart hópi sem sóttist eftir verkefninu.

Uppbygging og rekstur heilsuræktar við Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja var auglýst á vef Vestmannaeyjabæjar í mars, tveimur mánuðum eftir að bæjarráð samþykkti beiðni forstjóra World Class um viðræður um slíkan rekstur.

Auk World Class sýndi hópur fólks með reynslu af rekstri líkamsræktarstöðva, þar á meðal Leifur Geir Hafsteinsson sem stofnaði fyrstu Crossfit-stöð landsins, fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags áhuga á verkinu.

Bærinn ákvað að ganga til viðræðna við World Class í apríl. Því vildi hinn hópurinn ekki una og kærði útboðið til kærunefndar útboðsmála. Krafðist hann þess að samningsgerðin yrði stöðvuð á meðan skorið yrði úr málinu.

World Class hefur rekið líkamsræktarstöð í íþróttamiðstöðinni í Eyjum frá því í júní á grundvelli bráðabirgðasamnings við bæinn.

Lögðu ekki mat á virði samningsins fyrir útboð

Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að Vestmannaeyjabær hefði ekki fylgt reglum um útboð og boðið stöðina út sem sérleyfssamning. Ekki hefði verið lagt mat á verðmæti leyfisins áður en það var boðið út. 

Verðmætið hafi verið umfram fjárhæðarmörk sem kveðið sér á um í reglugerð um útboð sem þessi. Bjóða þarf út slíka samninga sem eru yfir rúmum 800 milljónum króna að verðmæti á EES-svæðinu.

Felldi nefndin því úr gildi ákvörðun Vestmannaeyjabæjar um að velja tilboð World Class og gerði henni að bjóða heilsuræktarstöðina út aftur. Einnig viðurkenndi nefndin skaðabótaskyldu bæjarins gagnvart kærendunum vegna kostnaðar þeirra við þátttöku í útboðinu. Bærinn þarf einnig að greiða kærendunum milljón krónur í málskostnað.

Niðurstaðan ákveðin

Leifur Geir fagnar niðurstöðunni sem hann lýsir sem fullnaðarsigri. Hann og félagar hans hafi talið margt ámælisvert við útboðið og hvernig að því var staðið, þar á meðal upplýsingagjöf, mælikvarða sem voru notaðir og mat á tilboðum.

Leifur Geir Hafsteinsson er einn fjögurra einstaklinga sem standa að óstofnuðu einkahlutafélagi og sækjast eftir að byggja upp og reka líksmaræktarstöð í EyjumVísir

„Það er voðalega auðvelt að búa sér til þá mynd í huganum að menn hafi verið að leita eftir einni ákveðinni niðurstöðu sem var ekki að fá okkur til liðs við sig. Sem okkur auðvitað sárnaði því við lögðum mikla vinnu í umsóknina okkar og við vitum að við erum að bjóða upp á mun glæsilegri líkamsrækt en það sem gengur og gerist í bransanum,“ segir Leifur Geir við Vísi.

Hann segir að hópurinn ætli að áfram að sækjast eftir því að fá að byggja og reka heilsuræktarstöðina þegar bærinn býður hana út aftur.

Löngu fallið frá upphaflegu leiðinni

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, segir að bærinn hafi fallið frá upphaflegri leið við að bjóða út heilsuræktarstöðina fyrir mörgum mánuðum. Ákveðið hefði verið að fara í formlegt sérleyfisútboð í stað þess að eyða mörgum mánuðum í að bíða eftir úrskurði kærunefndarinnar.

Hún vísaði á Brynjar Ólafsson, framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar. Hann segir að ákvörðunin um að falla frá fyrra ferli hafi verið tekin um leið og það var kært. 

Íris Róbertsdóttir er bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar.Vísir/JóiK

Uppbygging og rekstur stöðvarinnar verði nú boðin út sem sérleyfissamningur á EES-svæðinu.

„Miðað við hvernig vinnan hefur gengið vonast ég til að geta boðið þetta út núna í janúar,“ segir Brynjar.

Líkamsræktarstöðvar hafa verið reknar undir merkjum Hressó í Vestmannaeyjum, þar á meðal í íþróttamiðstöðinni. Aðstandendur þess félags tilkynntu fyrr á þessu ári að þeir hygðust hætta rekstrinum.

Brynjar segir að bærinn hefði leitað til tilboðsaðila um að taka við rekstrinum tímabundið. Ákveðið var að gera bráðabirgðasamning við World Class sem var tilbúið að hefja rekstur fyrr en hinn hópurinn*.

Tvöfalda salinn á kostnað World Class

Með samningnum leigir World Class tímabundið um 160 fermetra aðstöðu í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja til að reika heilsuræktarstöð. Samningurinn gilti til 1. nóvember upphaflega en World Class hafði einhliða heimild til þess að framlengja hann til áramóta.

Framkvæmdir eru þegar hafnar við líkamsræktaraðstöðuna sem World Class leigir í miðstöðinni. Í tilkynningu á vef Vestmannaeyjabæjar í síðasta mánuði kom fram að núverandi æfingasalur yrði nærri því tvöfaldaður að stærð.

Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs bæjarins, sagði Eyjafréttum fyrr í þessum mánuði að framkvæmdirnar væru alfarið á kostnað World Class. Bærinn hefði ekki upplýsingar um kostnaðinn eða umfangið en að framkvæmdirnar væru með samþykkti hans þar sem þær nýttust honum sama hvernig útboðið færi.

*Eftir að fréttin birtist gerði Leifur Geir athugasemd við orð Brynjars, framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs, um að haft hefði verið samband við tilboðsaðila um að taka við rekstri líkamsræktarstöðvar tímabundið í íþróttamiðstöðinni.

„Þetta er beinlínis rangt. Bærinn byggði ákvörðun sína eingöngu á fyrirliggjandi upplýsingum í umsókn okkar í hinu ólögmæta útboði, en ekki með því að ræða nánar við okkur eftir að útboðið er kært og ný staða kemur upp,“ sagði hann í skriflegri athugasemd við frétt Vísis.

Fréttin var uppfærð með athugasemd Leifs Geirs og upplýsingum um stækkun æfingasalsins sem World Class hefur á leigu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×