Sport

Tap gegn toppliðinu í síðasta heimaleiknum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Travis Kelce íhugar að leggja hjálminn á hilluna. 
Travis Kelce íhugar að leggja hjálminn á hilluna.  Luke Hales/Getty Images

Denver Broncos unnu 20-13 gegn Kansas City Chiefs í síðasta heimaleik höfðingjanna á tímabilinu, og mögulega síðasta heimaleiknum á ferli Travis Kelce.

Í fyrsta sinn síðan árið 2014 eru Chiefs, sem hafa unnið þrjá meistaratitla á síðustu fimm árum, ekki á leið í úrslitakeppnina.

Vegna meiðsla Patrick Mahomes og varaleikstjórnandans Garnder Minshew var Chris Oladokun dreginn upp úr varaliðinu.

Hann hafði beðið í fjögur ár eftir tækifærinu og á lokamínútu leiksins hefði hann getað gefið Chiefs möguleika á að jafna leikinn, en sendingin í endamarkið flaug yfir samherja hans.

Sigurinn setur Broncos í mjög góða stöðu. Liðið er efst í AFC vesturdeildinni og tryggir sér toppsætið ef LA Chargers tapa eða gera jafntefli gegn Houston Texans, eða með því að vinna lokaleik tímabilsins.

Höfðingjarnir frá Kansas eru hins vegar í þriðja sæti sömu deildar og munu enda sitt tímabil með útileik í næstu umferð gegn LV Raiders.

Einn besti innherji í sögu NFL deildarinnar gæti því hafa verið að spila sinn síðasta heimaleik í Kansas.

Travis Kelce hefur sterklega íhugað að leggja hjálminn á hilluna vegna þrálátra meiðsla og staðfesti eftir leikinn í gær að honum hefði ekki snúist hugur, en endanleg ákvörðun verður tekin eftir tímabilið.

Hann hefur verið leikmaður liðsins allan sinn þrettán ára feril í deildinni, orðið meistari þrisvar og verið valinn í úrvalsliðið fjórum sinnum.

Á þeim tíma hefur hann gripið 645 sendingar á Arrowhead leikvanginum, heimavelli Chiefs, en aðeins Jerry Rice og Larry Fitzgerald hafa gert betur.

Hann er aðeins tíu jördum frá því að ná samtals þrettán þúsund jördum á ferlinum og gæti framlengt met sitt um flesta leiki í röð með gripnar sendingar upp í 191 leik í næsta leik gegn LV Raiders, ef hann spilar.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×