Sport

„Ég elska peninga“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Clowney er skemmtilegur karakter en þó enginn trúður. Hann hefur verið öflugur í vörn Dallas í ár.
Clowney er skemmtilegur karakter en þó enginn trúður. Hann hefur verið öflugur í vörn Dallas í ár. Kara Durrette/Getty Images

Jadeveon Clowney, varnarmaður Dallas Cowboys, segist ekki skorta hvatningu til starfsins þrátt fyrir að kúrekarnir komist ekki í úrslitakeppnina þetta árið í NFL-deildinni.

Cowboys mæta Washington Commanders í fyrsta jólaleik dagsins í NFL-deildinni klukkan 18:00 og Clowney var í aðdraganda hans spurður hvort leikirnir skiptu einhverju máli og hvort leikmenn skorti hvatningu til að spila þá.

„Hvað meinarðu mótiveraður?“ spurði Clowney á móti sem virtist móðgaður yfir spurningunni. „Þeir eru að borga mér. Það er næg hvatning fyrir mig. Ég elska peninga,“ sagði Clowney.

„Það er ekki bara það. Ég stend fyrir meira en bara liðip. Ég er að spila fyrir meira en sjálfan mig - fjölskylduna sem stendur við bakið á mér. Ég er að spila fyrir alla og það hefur verið þannig frá upphafi,“

„Og ég hef aldrei gefist upp á neinu. Það verður ekki erfitt fyrir mig að stíga upp og spila einhvern leik. Ég sinni starfinu mínu,“ sagði Clowney enn fremur.

Þrír leikir eru á dagskrá í NFL-deildinni í dag milli sterkra liða á pappír en spennan er lítil hjá þeim eftir skrautlegt tímabil.

Af miklu var búist af bæði Dallas Cowyboys og Washington Commanders sem eigast við fyrst en bæði eru úr leik hvað úrslitakeppnina varðar.

Klukkan 21:20 eigast við Minnesota Vikings og Detroit Lions. Víkingarnir eiga ekki séns á úrslitakeppninni og Ljónin eygja veika von, talið er að þeir eigi um 9 prósent líkur með sigri í kvöld.

Þá er þriðji leikurinn í nótt milli Kansas City Chiefs og Denver Broncos. Höfðingjarnir eru án Patrick Mahomes sem sleit krossband og jafnframt úr leik hvað úrslitakeppnina varðar í fyrsta sinn í ellefu ár. Að sama skapi eru Stóðhestarnir öruggir í úrslitakeppnina og fastlega búist við sigri þeirra í nótt.

Fyrri tveir leikirnir eru í opinni dagskrá fyrir þá sem hafa aðgang að Netflix en sá síðari á Amazon Prime.

Öllu meira spennandi leikir eru á dagskrá í NFL-deildinni um helgina sem má fylgjast með öllum samtímis í NFL Red Zone á Sýn Sport 3 klukkan 17:55 þann 28. desember.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×